Elsku Steingeitin mín, lífið er oft á meiri hraða heldur en þú vilt. Þá geturðu átt það til að frjósa og gera sem minnst. Því fylgir vanlíðan sem á vitaskuld ekki heima hjá þér. Ekki hugsa um allt í einu, því þá fer heilinn þinn í bakkgír. Það sem þú hefur lagt fyrir þig að gerist, gerist og já, þú stjórnar rosalega mörgu sem gerist.
Sú útkoma er að taka meiri tíma af þér en þú bjóst við, en þegar um það bil 55 dagar eru liðnir muntu uppskera alveg heilmikið. Þú sérð í ástinni hvað er rétt og hvers þú þarfnast og ef þú ert svo heppin að vera á lausu, þá skaltu stinga þér í djúpu laugina, bara láta þig vaða, þú hefur engu að tapa!
Þú virðist fá verðlaun og viðurkenningu þegar líður enn meira á árið. Og færð tilboð um að þú gætir stækkað orkuna margfalt á framabrautinni, hvað svo sem frami þýðir fyrir þér. Það er svo misjafnt hvers við óskum og sum ykkar vita ekki hvað þau vilja, og þá veit Alheimsvitundin heldur ekki hvað hún á að færa þér.
Leggðu það niður fyrir þig að þú ætlir að vinna eða læra það sem þér þykir gaman. Því að þó að þú fáir einhvern stóran titil í leiðinlegu námi eða vinnu, þá gerir það ekkert fyrir þig. Þetta er þitt líf og þú átt það skuldlaust. Og vinir þínir og fjölskylda eru blómin í garðinum þínum. Svo skoðaðu garðinn þinn vel, því þú ert sérstaklega heppin hvað það varðar. Og hvað skiptir máli? Nákvæmlega bara það. Grasið er ekki grænna hinum megin við húsið, heldur í hverju skrefi sem þú ert í, byrja blómin að vaxa og dafna og í því felst hamingjan.
Ég dreg fyrir þig tvö spil og þú færð mynd af kennara og á spilinu er talan fimm, sem táknar fjölbreytileika. Og undir því stendur: Þín er viskan. Síðan færðu mynd af manneskju í munkafötum, talan tveir fylgir henni. Þar sést að þú ert að loka fortíðinni og ert með þinn einstaka lykil að lífinu um hálsinn. Og setningin sem fylgir þessu spili er: Innsæi þitt skapar lífið.