Elsku Bogmaðurinn minn, það hafa verið mörg tækifæri í kringum þig. Sum hefurðu nýtt vel en önnur hafa farið forgörðum. Í upphafi þessa árs muntu loka því sem þér finnst leiðinlegt. Alheimstalan níu er með þér í upphafi árs og hún gefur þér kraft til að henda öllu því út úr lífi þínu sem pirrar þig og rífur frá þér orkuna. En það sem gekk mjög vel á síðasta ári mun eflast á þessu herrans ári og halda áfram í lífskeðjunni þinni.
Þú gætir átt það til að detta í töluverðan pirring yfir annarra manna leiðindum og leti. Sýndu aðeins meiri þolinmæði og passaðu upp á það að gera engan að óvini þínum. Þú gætir nefnilega þurft á því að halda seinna meir að hlutirnir voru gerðir með friði. Nýtt tungl er 2. janúar og þú skalt ekki láta það framhjá þér fara. Því það er svo magnað og mikið að gerast í kringum þig á þessum tíma.
Þegar febrúar hefur göngu sína, þá er hugur þinn skýr og eldheitur til þess að meðtaka þær áskoranir sem fyrir þig verða settar. Þú leysir flókin málefni og stólar á sjálfan þig eins og hershöfðingi, því það er eina manneskjan í lífinu sem þú virkilega getur trúað á. Það er mikilvægt þú leysir öll þessi verkefni sjálfur, því að styrkur þinn er óendanlega kraftmikill.
Í kortinu þínu kemur fram að maímánuður verði ekki allt of auðveldur, en þá segi ég þessa fínu setningu „af auðveldu verður ekkert til“, svo stormaðu áfram í því hindrunarhlaupi eins og það eldmerki sem þú svo sannarlega ert og býrð yfir slíkum krafti. Því þú sérð að þegar sá tími er búinn færðu fyrstu verðlaun, en það er ekki það sem þér finnst í kringum þetta tímabil. Þetta verður svo dásamlegt sumar og ef þú ert að leita að sjálfum þér eins og er svo algengt með okkur og þá finnurðu kjarnann sem skiptir máli á þessu sumri.
Orka ástarinnar læðist líka í kringum þig yfir miðbik sumarsins. Þú þarft að leyfa lífinu að gerast og hindra það ekki, svo slepptu tökunum og leyfðu þér að njóta. Það verður hasar og hamingja um haustið og hringekja lífsins snýst hratt. Þar verður þú svo sannarlega í essinu þínu, því þú vinnur best undir spennu. Þú lítur á lífið sem veislu og þér er illa við að njörva þig niður. En þú átt eftir að virkja svo mikinn sjálfsaga sem býr raunverulega í hjarta þínu og mun snúa orkunni þinni til heilbrigðari og betri lífstíls.
Knús og kossar, Sigga Kling