Elsku Vogin mín, litríkasta og fallegasta fólkið hefur valið sér að fæðast í þessu merki og þú þarft að muna að vera stolt af sjálfri þér og alls ekki gleyma því sem stóð uppúr á síðasta ári. Strokaðu hitt úr minni þínu og talaðu lítt sem ekkert um þá atburði sem hafa sparkað í þig á síðasta ári þegar hið nýja ár gengur inn í garðinn þinn. Þú byrjar þetta nýja tímabil á hinni andlegu og heilögu tölu sjö og þá er svo mikilvægt að hugsa eins og indíáninn gerði, að tengja sig í jafnvægi í gegnum dýrin og frumkraftinn sem býr í sögunni okkar allra.
Vatnið og eldurinn er mikilvægur og það virðist svo margt vera eins og sofandi þennan fyrsta mánuð sem blessar þig. Tíminn líður óvenju hægt, sem er líka gott því að hraðinn hefur verið ótrúlegur hjá þér. Þú lendir eins og lóan gerir þegar hún kemur hér á vorin og segir okkur að vorið sé komið og þar sem þú ert sannkallað loftmerki þarftu líka að geta flogið eins og lóan og vera hreyfanleg eins og vindurinn.
Þegar febrúar byrjar þá flytur þú til fjöll, virkjar í þér hermanninn og leysir þau verkefni sem þú bæði hefur sett til hliðar eða geymt. Þú sérð það bæði og skýrt og skorinort á vormánuðum að þú ert ekki tré svo þú getur fært þig um stað, hvert svo sem þér verður boðið.
Þú kannt líka betur og betur að meta ástina sem er í kringum þig og þannig byrjar þú sumartímann. Í því samhengi ferðu að finna þér ný áhugamál sem gefa þér birtu hjartans og andlega fullnægingu.
Það verður svo mikið flæði í því sem þú sérð með þínum andlega krafti. Þú skynjar svo mikið mátt þinn fyrir því hvað í raun og veru er rétt eða rangt. Það eru margir óvenjulegir og merkilegir hlutir tengdir í kringum september, október eða nóvember og sérstaklega í kringum afmælismánuðinn þinn. Því að lífskrafturinn tengir þig svo hátt og talan sjö kemur aftur fyrir, en útkoman úr tvisvar sinnum sjö er 14, jafnt og fimm. Þetta tengir saman sjálfstæði og þrjósku sem eflir þig í hinu rétta. Nýtt og skemmtilegt fólk og framandi ferðalög, það verður allt að gerast. Þannig að þú getur svo sannarlega leyft þér að hlakka til.
Knús og kossar, Sigga Kling