Elsku Fiskurinn minn,
þú ert að fara inn í svo gott tímabil á þessu ári að þú munt gleyma því gamla og öll leiðindi munu fjúka frá þér. Þú verður með svo sterkan baráttuhug, hvort sem það tengist að berjast fyrir sjálfum þér eða öðrum. Þú ert mikil hugsjónamanneskja og það er erfitt að kaupa þig til fylgis. Þú hefur þær merkilegu gáfur að geta breytt lífi þínu á stuttum tíma. Ef þú lítur tilbaka yfir síðasta ár, þá sérðu það svo sannarlega að það er ekkert sem fær þig stöðvað, en það getur vel verið þú hafir þó þurft að stoppa stund og stund.
Þú ert svo hæfileikaríkur og þar af leiðandi ertu oftar en ekki með of mörg verkefni eða áhugamál í gangi hjá þér. Það er eins og þú fæðist fullorðinn og með sterka þekkingu á því hvernig þú færð aðra til þess að hlægja eða að líða betur þegar þú gefur þeim ráð.
Það verður sko engin lognmolla yfir lífi þínu á næstunni og það er aðeins tvennt í stöðunni: Það er að geta eða að geta ekki. Þetta er alfarið undir þér komið og þínu hugsanakerfi. Þú verður að skilja það að Alheimurinn býr inni í sálu þinni og þú hefur svo mikil völd, bara með því að ákveða hvernig þú ætlar að skrifa ævisöguna. Núna eru tækifærin að fæðast í kringum þig eins og enginn sé morgundagurinn. Skoðaðu í því samhengi hvað þér finnst skemmtilegt eða hvað finnst þér leiðinlegt?
Taktu ákvarðanir og byrjaðu að gera það sem þú getur til þess að fá þá útkomu sem þú ert að vonast eftir. Hafðu það í huga að það er í raun enginn sem getur gert það sem þú þarft að gera til þess að breytingarnar sem þú vilt fá komi til þín. Vegna þess að ef þú stólar á að aðrir reddi, bjargi eða bæti, þá verður þú fyrir vonbrigðum. Ef þú ert í ástarhugleiðingum, treystu þá ekki öðrum fyrir þínum leyndarmálum. Þjóð veit ef þrír vita er gamalt íslenskt spakmæli, svo passaðu þig á því. Ekki reyna að laða til þín manneskjur sem þú ætlar að bjarga eða breyta, þá verða vonbrigðin þinn morgunmatur. Það eru einhver ástaraugu að horfa á þig, skoðaðu aðeins betur, þá sérðu það sem blasir við þér.
Knús og kossar,
Sigga Kling