Elsku Krabbinn minn,
það er svo logandi skemmtileg og falleg tíðni að læðast inn í tilveruna þína. Þú sérð möguleikana í hverri mínútu, þú virkjar öll þín skilningarvit og sjötta skilningarvitin verður sérstaklega næmt. Þú sérð og finnur að þú færð einhverskonar vitranir, bæði í draumi og vöku. Það eina sem getur haldið þér niðri er að þú sért undir einhverri kúgun og stjórnsemi annarra, sem mölva andann þinn.
Það er þitt að brjótast undan okinu og gefa þeim ekki tækifæri sem halda það að þeir séu yfir þig hafnir. Þú færð möguleika á flutningum og þú skynjar hvað þú hefur verið að gera rangt gagnvart sjálfum þér. Þú færð líka möguleika á nýju starfi, starfsháttum eða skólagöngu, en fyrst og fremst færðu kraft til að geta verið hreykinn af sjálfum þér.
Þetta mun opna hjarta þitt upp á gátt og ástin mun smjúga þar inn ef þú vilt og ef hún er ekki til staðar. Eitthvað úr fortíðinni mætir þér, eitthvað sem þú varst alveg búinn að gleyma. Þetta getur líka verið eitthvað sem þú hefur óskað þér fyrir löngu að myndi gerast, en var fallið í gleymskunnar dá. Svo eins og hendi væri veifað skreppur þetta inn í líf þitt og litar það með regnboganum.
Það eru líka hlutir sem þú hefur gefist upp á að þú gætir gert sem snúa öðruvísi við þér núna og þá skalt þú svo sannarlega ekki hika. Því rétta tíðnin er í kringum þig til að ýta þér áfram.
Líf þitt er búið að fara í ákveðna hringi og hefur átt það til að endurtaka þá hringi. Þú hefur lent í því að þér hefur fundist þú vera berrassaður fyrir framan alla og að fólk viti meira um þig en það ætti að gera. Þetta er alveg satt, en þú þarft ekkert að skammast þín fyrir neitt. Þú kemur þér úr allri klípu sterkari en fyrr, finnst þú vera eins og fuglinn Fönix sem rís úr eldinum og þú finnur að það er ekkert sem þú þarft að óttast.
Knús og kossar,
Sigga Kling