Elsku Steingeitin mín,
þú hefur gengið í gegnum margslungna og erfiða tíma. Þú hefur þá tilfinningu að þú sért að ýta á undan þér allt of stóru fjalli. Þú getur meira að segja átt það til að fara í taugarnar á sjálfri þér. Peningamálin hafa verið betri og þú getur leyft þér að trúa að það er að koma töluvert og mikið gott streymi til þín í þeim málum. Einnig eru vinnumálin þín að skerpast og þó að það sé ekkert sem er að breytast alveg á næstunni færðu að vita ýmislegt sem er þér í hag svo þú getur skipulagt þig og undirbúið þig fyrir þessa góðu tíma.
Það er ekki langt í það að þú farir eitthvað skemmtilegt og þá er ég að meina að þú fljúgir á vit ævintýranna, því þú átt það svo sannarlega inni.
Þeir sem eiga afmæli seinnipartinn í Steingeitarmerkinu eiga eftir að gleðjast sérstaklega yfir stórkostlegum skilaboðum sem berast á þeim tíma sem þú þarfnast þeirra mest.
Núna er nauðsyn að taka til í sálinni, henda út dóti, selja það sem hefur ekki lengur tilgang og að draga ekki lengur á eftir sér annarra manna drasl.
Þú átt eftir að horfa miklu bjartsýnni augum á tilveruna þína. Þú átt eftir að vakna upp eins og af löngum svefni og sjá að þú hefur svo mikla töfra að þú getur fengið það fólk í lið með þér sem þig vantar. Til dæmis í sambandi við peningamál eða húsnæði og alls ekki megum við í því samhengi gleyma heilsunni. Það er eins og þú hafir töfrastaf í höndum þér og getir sveiflað honum til að breyta tilveru þinni. Lífið er of stutt til þess að vera með leiðindi eða að hlusta á þau og þú munt taka til þinna ráða í þeim efnum.
Knús og kossar,
Sigga Kling