Elsku Krabbinn minn,
þú ert yfirleitt svo félagslyndur, hress og geislandi. En þú átt tímabil þar sem þú verður þögull og næstum því fráhrindandi og fólk skilur hvorki upp né niður í því sem þú ert að hugsa. Þú ert hrókur alls fagnaðar og ert auðfúsugestur á öllum stöðum, en það er ekki þar með sagt að þú sért alltaf í stuði. Það mætti kalla þetta að þú værir félagslyndur einfari. Þú hefur miklar væntingar í sambandi við ástina og fjölskylduna, en það tengir þig töluverð sorg samt í þeim efnum. Þá vil ég segja þér það að með hverri sorg kemur sigur. Þú þarft að passa þig á því að þegar þú lokar þig að mestu leyti af, þá verðurðu svo geðstirður og minnstu hlutir fara í taugarnar á þér. Þá gerist það líka að þú ferð í taugarnar á sjálfum þér, því að þú ert eina persónan sem þú þarft að hanga með.
Að mörgu leyti myndi henta þér best að vera í fjarsambandi. Sérstaklega þegar árin færast yfir, en þá kemur það líka fyrir að þú getir ekki treyst nægilega. Því þú hefur verið svikinn áður. Það kemur núna sá tími að þú verðir heppinn í sambandi við peninga, það verður næstum því eins og þeir falli af himnum ofan. Ég get ekki skilgreint þetta, en þetta kemur á besta tíma fyrir þig.
Þú ert búinn að vera að læra svo mikið á lífið, hvernig á að spila það. Þetta er gott sumar sem er að bjóðast þér og þú átt eftir að fá eða að biðja um meiri tíma fyrir sjálfan þig og þar af leiðandi eftir að njóta meira einfaldleikans. Þú hefur kraft, metnað og vilja til þess að ná árangri og þú átt í huganum eftir að tímasetja breytingar og þú hefur á réttu að standa hvað er rétt fyrir þig. Ástin verður óendanlega falleg og það eina sem þarf er að vera friðsamur.
Knús og kossar,
Sigga Kling