Elsku Fiskurinn minn,
það er allavega litríki í þeim tíma sem þú ert að synda inn í. Það er ofsalega mikil tilfinningasveifla í fallega hjartanu þínu. Þú veist oftast ekki hvort þú sért ofsakátur eða ofsakvíðinn. En þetta verða allt hamingjudagar hjá þér, en í raun bara aðeins minni hamingja suma daga en aðra.
Þú ákveður að framkvæma og segja já við einhverju sem getur breytt svo miklu í lífi þínu. En um leið og þú ert búínn að því þá hugsarðu að þú hafir gert rangt. Hugsanirnar eru að blekkja þig hjartagull, þú þarft bara að ákveða og sleppa. Ákveða svo annað og sleppa því líka, því annars frýstu eins og internetið. Hugsun um peninga og hvernig þú getir reddað og bjargað öllu og öllum brjótast inn í tíðnina þína oftar en þú kærir þig um. En eins og alltaf þá bjargast allt í sambandi við veraldlegan metnað.
Það er ekkert að fara frá þér sem þú vilt hafa hjá þér. En þörf þín fyrir því að hafa allt „under control“ og allar blaðsíður í lífsbókinni þinni þéttskrifaðar, er eitthvað sem þú þarft að sleppa og að treysta því að þú syndir áfram og þurfir engan kút. Það eru skilaboðin sem eru sterkust í kortunum þínum. Þegar þú sérð að tíminn er ekki til, því það er alltaf bara núna, ferðu að njóta hans eins og marglyttan sem lifir að eilífu. Því að í eðli þínu viltu tímasetja allt; á föstudaginn er þetta, þriðjudaginn hitt og hvað ætla ég að hafa í matinn og svo framvegis.
Orkuþjófar eru svolítið að setjast nálægt þér. Það er allt í lagi en gefðu þeim bara styttri eða engan tíma. Þetta er ekki vont fólk, heldur fólk sem ekki tilheyrir þínum sálnahóp. Það getur þrátt fyrir það verið í fjölskyldunni þinni.
Það er eins og það sé vinningur eða einhverskonar „surprise“ sem gleður þig svo mikið og hjálpar þér við að slaka á, að minnsta kosti um stund. Það eru svo margar góðar fréttir að berast þér og þó að einhverjar slæmar fylgi með, tekurðu það ekki eins mikið inn í harða drifið þitt. Vegna þess þú veist að þú heldur á hamingjunni í höndum þér.
Knús og kossar,
Sigga Kling