Elsku Meyjan mín,
mikið máttu vera fegin að haustið sé að koma. Því það er svo fjölbreytt orka á ferðinni sem þú munt umfaðma og svo margt sem þú munt finna að þú elskar. Tilfinningarnar þínar verða á suðupunkti og orðheppni þín nær hærri hæðum. Þessi sannfærandi orka mun efla þinn status margfalt. Því að bara með orðunum einum gætirðu vakið einhvern upp frá dauðum, en þar sem við trúum ekki á dauðann verður það óþarfi. Taktu áhættu og séns á ástinni, ef það særir engann. Og þó að jafnvel einhverjir í fjölskyldunni séu ekki hlynntir ráðahagnum þá eiga þeir sitt eigið líf, ekki þitt.
Ef þú ert að framkvæma, skapa eða selja, þá verður öll athyglin á því sem þú ert að gera og þótt þú viljir ekki athygli, þá færðu hana samt. Margir segja við mig: „Sigga ég ætla að ná ótrúlegum árangri því sem ég er að gera eða framleiða, en ég vil samt enga athygli sjálf“. En þá verðurðu að athuga hjartað mitt að annaðhvort tekurðu allann pakkann eða strögglar áfram. Þú hefur svo bjarta orku og þessvegna munu svo margir veðja á að vera með þér í liði.
Ekki hanga í neinu sem er bara að veita þér veraldleg gæði því að þú ert að uppskera það sem þú hefur í raun unnið lengi að. Að sjálfsögðu verða erfiðleikar samtvinnaðir í þetta, því ekkert hefst nema fyrir því sé haft. Þú nýtur meira og betur hins einfalda vegna þess einungis að þú ert að einfalda líf þitt. Hjarta þitt er að stækka um marga, marga, marga metra og þar munu svo ótalmargir eiga sér skjól sem þurfa á þér að halda.
Það sem þér finnst að ekki hafi tekist nógu vel hjá þér í langan tíma gefur þér útkomu og ákveðni til þess að raða saman þessari krossgátu sem lífið er. Því að þú ert með þau spil á hendi núna sem gefa þér forskot og sannkallaðar vinningslíkur.
Knús og kossar,
Sigga Kling