Heilsaði Evrópu með náttúrulegum geislabug

Ragnhildur Steinunn með blómakransinn í hárinu.
Ragnhildur Steinunn með blómakransinn í hárinu. mbl.is/Marta María

Sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir geislaði á skjánum í gærkvöldi þegar hún lét heimsbyggðina vita hvaða lög fengju stig frá Íslandi. Kjóllinn, skartið, hárið og förðunin skipti miklu máli á þessu augnabliki. Hún var þó ekki í neinum vandræðum og var langflottust með íslenskar jurtir í hárinu. 

,,Ég var búin að ákveða að vera bara í einhverjum gömlum kjól úr skápnum mínum en svo fékk ég óvænt símtal í gær. Elínrós Líndal stofnandi fyrirtækisins Ellu hringdi og spurði hvort hún mætti ekki senda mér nokkra kjóla að gamni sem ég gæti mátað fyrir Eurovision. Fimm mínútum síðar birtist sendill á tröppunum hjá mér með tvo gullfallega svarta gjafakassa fulla af kjólum. Ég féll strax fyrir Audrey silkikjólnum. Mér fannst sniðið einfalt og fallegt og liturinn afar íslenskur,“ segir Ragnhildur Steinunn sem klæddist gráum kjól þegar hún kynnti stigagjöfina í Eurovision fyrir hönd Íslands.

Hvað varstu með í hárinu? „Ég fékk allt í einu þá flugu í höfuðið þegar ég vaknaði á laugardagsmorguninn að ég ætti að vera með blómakrans á höfðinu. Var einhvern vegin komin með nóg af gulli og glitri og langaði bara í fallegt skart úr náttúrunni! Ég hringdi strax í næstu blómabúð og Katrín Magnúsdóttir blómasnillingur var svo elskuleg að föndra þennan blómakrans fyrir mig úr ástareldi, brúðarslöri og bleikum rósarblöðum! Mér fannst hann æði.“


Berglind Magnúsdóttir sá um hár og smink. Berglind málaði Ragnhildi Steinunni með mildum farða. Við augnskygginguna notaði hún brúna tóna, bleikt í kinnarnar og ljósan bleikan lit á varirnar. ,,Við vildum hafa hárið látlaust og náttúrulegt og notuðum stórt krullujárn til þess að gera liði neðst í hárið.“

En hvernig er undirbúningur fyrir stigagjöfina? "Það er ótrúlegt hvað það þarf margar æfingar fyrir 10 sekúndur á skjánum. Það er eiginlega hálf hlægilegt. Allt föstudagskvöldið fór í æfingar og síðan þurftum við að vera mætt á símafund klukkan tíu í morgun til þess að fara yfir hin ýmsu atriði eins og hljóðstyrk, rétta myndavélavinnslu, lýsingu osfrv. Síðan verður maður náttúrulega að passa að vera alls ekki í grænum fötum vegna þess að þetta er tekið upp í svokölluðu ,,green screen" þ.e.a.s ég stend bara fyrir framan grænt tjald og svo er bakgrunnurinn (mynd af Reykjavík) sett inn samtímis. Ef maður klæðist grænu í ,,green screen" þá rennur liturinn saman við tjaldið.“


Hefur fólk erlendis einhvern tíman þekkt þig út frá stigagjöfinni?
"Já veistu, það er reyndar til ein svoleiðis ótrúleg saga. Ég var stödd á veitingahúsi á Krít með Sigrúnu Ósk vinkonu minni þegar það kom grískur maður upp að mér og spurði hvort ég hefði ekki lesið upp stigin í Eurovision fyrir Ísland það árið. Svo fór hann að telja upp hversu mörg stig við gáfum hinum og þessum þjóðum það árið. Það var frekar fyndið en þetta hefur greinilega verið einn af þessum allra hörðustu Eurovision aðdáendum."

Ragnhildur Steinunn og Ragnheiður Thorsteinsson pródúsent.
Ragnhildur Steinunn og Ragnheiður Thorsteinsson pródúsent. mbl.is/Marta María
Berglind sminka setur kransinn á Ragnhildi Steinunni.
Berglind sminka setur kransinn á Ragnhildi Steinunni. mbl.is/Marta María
Ragnhildur Steinunn komin í kjólinn frá Ellu og tilbúin í …
Ragnhildur Steinunn komin í kjólinn frá Ellu og tilbúin í slaginn. mbl.is/Marta María
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál