Kolbrún Pálína Helgadóttir, ritstjóri Nýs Lífs, verður einn af dómurunum í Ungfrú Ísland sem fram fer á Broadway annað kvöld. Guðrún Möller, sem eitt sinn var fegurðardrottning, hafði samband við Kolbrúnu og bað hana um að dæma í keppninni.
„Þetta er skemmtilegur hópur og verkefni og ég gat ekki sagt nei."
Kolbrún Pálína sigraði Ungfrú Ísland.is árið 2001. Þegar hún er spurð að því hvort keppnin hafi veitt henni einhver tækifæri í lífinu segir hún að keppnin hafi mótað leið hennar í lífinu.
„Eftir á að hyggja þá hefur þetta mótað leið mína að miklum hluta og því vottar ekki fyrir eftirsjá í mínum huga. Það fylgdi titlinum að skrifa pistla á Strik.is og þá uppgötvaði ég fegurðina við að skrifa og hef skrifað síðan.
Finnst þér fegurðarsamkeppnir engin tímaskekkja?
"Það má vissulega deila um það en ég lít svo á að það sé hvers og eins að ákveða hvað hann tekur með sér úr svona reynslu. Þetta er jú ekkert nema reynsla og upplifun. Svo má ekki gleyma því að þetta er ofboðslega skemmtilegt! Svo eru sumar sem fá stór tækifæri í kjölfar svona keppna, bæði sem fyrirsætur og fegurðardrottningar."
Hvaða útlit er inn í dag? Verður blondína í fyrsta sæti eða?
"Það er ómögulegt að segja, hópurinn er einstaklega sterkur í ár og þær þurfa að leggja allt í þetta á lokakvöldinu. Það getur allt gerst!"