Sigurjón Sighvatsson búinn að velja frumsýningarfötin

Sigurjón Sighvatsson.
Sigurjón Sighvatsson. Zack Gemmell

Nýjasta mynd Sigurjóns Sighvatssonar, Killer Elite, verður frumsýnd samtímis í þremur löndum: Bandaríkjunum, Bretlandi og Rússlandi, 23. september. Aðalleikarar myndarinnar eru Robert De Niro, Jason Statham og Clive Owen. Viku áður verður „gala“-frumsýning á myndinni í New York þar sem stjörnurnar úr Hollywood verða að sjálfsögðu á rauða dreglinum. Að sjálfsögðu verður Sigurjón staddur á þessari frumsýningu. Hann er nú þegar búinn að ákveða í hverju hann ætlar að klæðast á rauða dreglinum.

„Ég var svo heppinn að ná í Lanvin-smóking sem hann gerði fyrir H&M í fyrra, eftir að hafa staðið í biðröð í tvo klukkutíma ásamt 200 undurfögrum konum. Ég var eini karlmaðurinn í röðinni,“ segir hann og hlær.

Hann var heppinn að ná í fötin í Lundúnum því Lanvin-línan kláraðist nánast á fyrsta degi. 

„Ég borgaði 30 þúsund krónur fyrir þessi föt sem eiga án efa eftir að endast næstu 20 árin.

Frumsýningin á Killer Elite snýst ekki bara um fataval Sigurjóns þótt það skipti auðvitað máli að frumframleiðandi myndarinnar sé huggulegur til fara á rauða dreglinum. Myndin er byggð á sannri sögu en Sigurjón hnaut um bókina á sínum tíma og heillaðist upp úr skónum. Í framhaldinu keypti hann kvikmyndaréttinn, réð handritshöfund og leikstjóra svo Killer Elite kæmist á hvíta tjaldið. 

„Ég vann við þróun handritsins með þeim í sex ár en fékk síðan Jason Statham og umboðsmann hans til liðs við okkur. Þá fór boltinn að rúlla,“ segir Sigurjón.

Í framhaldinu verður myndin sýnd í yfir 5000 kvikmyndahúsum um heim allan. Sigurjón segir að líklega muni fleiri lönd bætast við. 

Þegar hann er spurður að því hvað hafi verið erfiðast við gerð myndarinnar nefnir hann fjármögnun. 

„Erfiðast var auðvitað að fjármagna myndina þar sem hún er ein dýrasta „sjálfstæða“ kvikmyndin sem framleidd var árið 2010. Það kostaði 65 milljónir dollara að fjármagna hana.“

Hann segir að kreppan sé víða, líka í Hollywood. 

„Það er mun erfiðara en áður að fjármagna stórmyndir sem þessar.“

Gerð myndarinnar var þó ekki eintómt basl og Sigurjón segir að það hafi verið stórkostlegt að fá að vinna með Robert de Niro og félögum. 

„Skemmtilegast var að fá að vinna með þessum stórleikurum og passa að allt gengi upp „átakalaust“,“ segir hann.  

Þótt stórmyndin Killer Elite sé tilbúin er þó lítið að róast hjá Sigurjóni því hann er strax farinn að huga að næsta verkefni. 

„ Framundan er mynd með Nicolas Cage sem heitir Dark Highway. Tökur hefjast seinna á árinu í Kanada.“

Sigurjón Sighvatsson ásamt Baltasar Kormáki.
Sigurjón Sighvatsson ásamt Baltasar Kormáki. mbl.is/Þorkell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál