Fréttakonan og gourmetkokkurinn María Sigrún Hilmarsdóttir gekk í það heilaga í sumar og bakaði sjálf brúðartertuna. Brúðartertan var á fimm hæðum og blómum skreytt. Hún lærði handtökin hjá versluninni Allt í köku.
Hvers vegna ákvaðstu að baka brúðartertuna sjálf?
„Ástæðan er einföld. Mig bara langaði til þess. Frá því að ég var lítil stelpa hef ég haft mjög mikinn áhuga á bakstri og kökuskreytingum. Þetta er mitt áhugamál og mér fannst miklu meira spennandi að gera þetta sjálf en að panta köku úr bakaríi. Mér fannst líka persónulegra að gera þetta svona og gaman að geta haft kökuna alveg nákvæmlega eins og við vildum. Þetta var mjög skemmtilegt allt saman og miklu auðveldara en flestir halda. Ég fékk líka aðstoð frá mömmu, mágkonum og mörgum vinkonum. Þær voru svo spenntar í þessu með mér og ólmar í að hjálpa til og við skemmtum okkur konunglega við kökugerðina.“
Hvaðan kemur bökunaráhuginn?
„Mamma leyfði mér að vera með í eldamennsku og bakstri frá því að ég var smástelpa. Ég var ponsulítil þegar hún leyfði mér að mæla, hræra og hnoða og þá varð ég bitin af bakteríunni og hef verið það síðan. Ég held að ég hafi verið búin að elda og baka allt upp úr gömlu Mikka Mús matreiðslubókinni viku eftir að ég fékk hana í afmælisgjöf þegar ég varð sjö ára.“
Aftur að brúðartertunni. Hvernig terta var þetta?
„Dökk súkkulaðikaka með súkkulaði- og vanillusmjörkremi. Svo setti ég á hana sykurhjúp og skreytti með sykurblómum.“
Brúðarterta Maríu Sigrúnar var eins og listaverk. Hún bjó til öll blómin sjálf og hannaði heildarútlit tertunnar sem var á mörgum hæðum.
„Ég fór á námskeið í versluninni Allt í köku í mars ásamt vinkonu minni og mágkonu. Þar lærðum við að gera hin ýmsu blóm, laufblöð og alls kyns skreytingar. Þetta var frábært námskeið og tók bara eina kvöldstund. Öll áhöldin sem til þurfti keypti ég líka þar. Sykurmassinn er þannig að hann harðnar og verður eins og brjóstsykur og getur geymst í marga mánuði. Svo hittumst við nokkur kvöld og höfðum það kósý saman og bjuggum til blómin með miklum fyrirvara, mig minnir að við höfum byrjað fljótlega eftir námskeiðið, rúmum þremur mánuðum fyrir brúðkaupið. Svo lituðum við blómin með þurrlitum úr sykri og geymdum í eggjaöskjum. Við gerðum 120 rósir og um 200 lítil blóm og heilmikið af sykurlaufblöðum.“
Var ekkert stress að baka tertuna sjálf fyrir brúðkaupið?
„Nei, þetta var mun auðveldara en það lítur út fyrir. Skreytingarnar voru allar tilbúnar vel fyrir tímann. Svo hjálpaði mamma mér að baka botnana, saga þá til, setja á þá smjörkrem og sykurmassa og svo í frysti. Botnarnir voru svo teknir út á fimmtudagseftirmiðdegi og látnir þiðna í sólahring. Daginn fyrir brúðkaupið stöfluðum við þeim svo upp, og skreyttum með borðum og blómum. Þetta heppnaðist allt svo vel og kakan vakti glimrandi lukku í veislunni, - ekki síður fyrir bragð en útlit.“