Dagskrárgerðarkonan Eva María Jónsdóttir stendur fyrir hlaupárshlaupi sem fram fer 29. febrúar. Hún skorar á fólk að mæta við Sundlaug Seltjarnarness kl. 16.30 og hlaupa 10 km með sér umhverfis Seltjarnarnes og Vesturbæinn. Þegar Smartland sló á þráðinn til hennar sagði hún að þetta væri meira í gríni en alvöru.
„Ég verð hvorki með númer né tímatöku,“ segir hún. Áður en Eva María eignaðist Sigríði, dóttur sína, hljóp hún 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Nú er hún komin aftur af stað og hefur það sem af er þessu ári hlaupið annan hvern dag.
„Mér finnst mjög erfitt að hlaupa, en stundum þarf maður að gera eitthvað sem er erfitt. Ég á fjögur börn og geri þetta til að lengja líf mitt,“ segir Eva María.