Ásdís Rán og Garðar Gunnlaugsson tilkynntu að þau væru skilin í gær. Nú fjallar búlgarska Cosmopolitan um skilnaðinn. Hjónin bjuggu um nokkurra ára skeið í Búlgaríu og er Ásdís Rán áberandi í fjölmiðlum þar í landi. Hann spilaði með liðinu CKSA en er nú fluttur heim til Íslands. Ásdís Rán er hinsvegar ennþá í Búlgaríu.
Í Cosmopolitan kemur fram að Ásdís Rán og Garðar ætli að reyna að skilja í góðu og vilja halda skilnaðinum utan fjölmiðla. Ásdís Rán sendi bréf til fjölmiðla í gær. Þar segir:
„Ég staðfesti sögusagnir um skilnað við eiginmann minn. Við vorum saman í níu ár og áttum gott og kærleiksríkt samband. Síðasta ár var erfitt í hjónabandinu og fjarlægðumst við og fórum í sitthvora áttina. Þá ákváðum við að enda hjónabandið. Ég biðst afsökunar á því að hafa logið að fjölmiðlum og sagt að við værum ekki að skilja. Það gerði ég til að vernda börnin mín þrjú sem eru á viðkvæmum aldri. Við skiljum af vinsemd og virðingu,“ segir Ásdís Rán við búlgörsku pressuna.
Þar kemur fram að greint hafi verið frá skilnaðinum á Íslandi í gær.
„Það er erfitt að skilja eftir langt samband og bið ég fjölmiðla að sýna okkur skilning. Ég vona að þið skiljið mig og mun ekki veita nein viðtöl núna. Þegar ég er tilbúin mun ég láta í mér heyra. Takk fyrir stuðninginn,“ sagði Ásdís Rán ennfremur.
HÉR má sjá fréttina.