Röddin í góðu formi eftir fæðinguna

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir. mbl.is/Golli.

Óperusöngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir lifir sannkölluðu heimsborgaralífi úti í Madrid, og þar er daglegt líf allt annað en hversdagslegt.

Mánudagur: Þegar ég geng í skólann með Evu, þriggja ára dótturina, geislar hún af ánægju í „chulapa“-búningi: hvítum kjól með rauðum doppum, með svörtu sjali yfir öxlunum og hvítan klút yfir hárinu, fyrir San Isidro-hátíðarhöld í skólanum. Hitinn er kominn til Madrídar, yfirhafnirnar skildar eftir heima. Við hjónin skrifum niður hugmyndir fyrir efnisskrá á tónleikum á hátíð í Þýskalandi á næsta ári.

Þriðjudagur: Tek neðanjarðarlestina niður í miðborg Madrídar með Leó, mánaðargamlan son minn, og fer í tíma til píanóleikarans Julio Alexis Muñoz til að undirbúa aríuna mína í Rómeó og Júlíu. Sem betur fer segir hann röddina vera í góðu formi eftir fæðinguna og heyrir jafnvel meiri fyllingu í botninum á henni. Ég fer rólegri en ég kom.

Miðvikudagur: Fer í söngtíma til Aliciu Nafé og tek Leó litla með mér. Við vinnum saman í þrjá klukkutíma, með brjóstagjafarpásu þó. Leó sefur jafnvel undir hæstu nótunum! Vinnum í tæknilegum atriðum, núna verð ég að nálgast sumt öðruvísi heldur en fyrir fæðingu. Eftir söngtímann geng ég í nostalgíu í gegnum gamla hverfið mitt, La Latina, og tek svo ofanjarðarlestina frá Sol-torginu heim.

Fimmtudagur: Næ að æfa mig vel heima og vinna í því sem Julio og Alicia höfðu bent mér á. Finn að bakvöðvarnir þurfa að vinna meira núna til að styðja röddina fyrst magavöðvarnir eru svolítið slakir eftir meðgönguna. Skoðum íbúð um kvöldið. Það er kannski kominn tími til að stækka við sig fyrst fjölskyldan hefur stækkað.

Föstudagur: Les síðustu próförk að plakatinu fyrir Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri sem eru í ágúst og tek Berlioz föstum tökum. Ætla að njóta síðdegisins með Evu litlu, en lendi þá í margra klukkutíma baráttu við ferðaskrifstofu, Iberia, og Icelandair vegna flugmiðavandræða Leós litla. Rétt fyrir lokun leysast málin þó. Við hjónin snæðum ljúffengan kvöldverð hjá tengdamömmu, en mikið er erfitt að kveðja Evu mína sem ég á ekki eftir að sjá í heila viku.

Laugardagur: Ferðadagurinn er runninn upp. Sem betur fer gengur allt ferðalagið vel, frá Madríd í gegnum Amsterdam til Reykjavíkur. Það er fallegt hvað fólk bráðnar þegar það sér mánaðargamlan snáða, kraftaverk lífsins, og allir eru boðnir og búnir að hjálpa mér. En yndislegt að koma heim til Íslands og borða lambalæri í faðmi fjölskyldunnar!

Sunnudagur: Nú er kominn tími til að hvíla sig og safna kröftum fyrir tónleikavikuna. Ég nýt þess að verja deginum á gamla heimilinu mínu í 101 Reykjavík. Amman heldur á dóttursyninum í fanginu, hugfangin, mikið er hann fallegur. Við hjálpumst að við að baða hann og svo skiptast þau Árni á að passa hann á meðan ég renni mér upp og niður tónskala við hljómborðið í eldhúsinu og syng Berlioz af lífsins yndi. Mikið hlakka ég til þess að syngja þessa fallegu tónlist í Eldborg!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda