Sýningar Benedikts Karls Gröndal hafa vakið töluverða lukku síðustu vikurnar. Í Frystiklefanum í Rifi á Snæfellsnesi flytur hann í sumar gamansýninguna Trúðleik og á Norðurpólnum á Seltjarnarnesi færir hann áhorfendum á öllum aldri gamanleikinn Fastur.
Mánudagur: Ég vaknaði úthvíldur eftir frábæra sýningarhelgi í Rifi. Tvær sýningar á Trúðleik fyrir fullu húsi. Þvílíkur dýrðarstaður sem Snæfellsnesið er.
Þriðjudagur: Almennilegur frídagur, fór út að hlaupa og naut sólarinnar, vann smá plöggvinnu fyrir leiksýninguna Fastur. Gleði, gleði. Svo lá leiðin í bíó að sjá Moonrise Kingdom, frábær mynd.
Miðvikudagur: Svaf yfir mig en það var allt í lagi því ég hafði ekkert að gera fyrri partinn. Eftir hádegi fór ég síðan á fund með Árna Kristjánssyni leikstjóra sýningarinnar Fastur. Plönuðum framhaldið. Síðan var tekin pása því við þurftum að horfa á Danmörk – Portúgal á EM. Var hlutlaus í byrjun en hélt síðan með Dönum því Portúgalar eru heimsins mestu væluskjóður!
Fimmtudagur: Svaf út (það þýðir svona 9). Tók daginn rólega því ég var að fara leika í sýningunni Fastur um kvöldið. Mjög spenntur. Það er svo gaman að flytja verkið og ekki skemmir að það var uppselt á sýninguna!
Föstudagur: Mega sól og ótrúlega gott veður. Ég dreif mig í sund en ekkert er betra en slaka á í sundi eftir sýninguna kvöldið áður. Ég horfði síðan mína menn, Frakka, máta Úkraínu í frekar blautum knattspyrnuleik. Ég held að Frakkland eigi eftir að vinna EM – djók! Samt ekki – djók– ég vona það samt. Á samt ekki eftir að gerast.
Laugardagur: Var að leika í barnaþáttum um morguninn. Eftir hádegi fór ég síðan í brúðkaup hjá vinum mínum. Veðrið lék við þau. Heldur betur! Mjög falleg athöfn og svo stórkostleg veisla þar sem var hlegið langt fram á nótt.
Sunnudagur: Eftir frábæra brúðkaupsveislu kvöldið áður vaknaði ég hress. Ég hefði viljað vera lengur en ég þurfti að fara snemma heim því það var þjóðhátíðarsýning á Trúðleik á Snefellsnesinu. Brunaði vestur í sólinni og við Kári Viðarsson lékum eins og vindurinn fyrir fullu húsi. Eftir sýningu var síðan grill og EM. Ég keyrði loks heim í sólsetrinu og raulaði lagið í Lukku Láka.