Victoria Beckham lét ganga á eftir sér þegar sú hugmynd kom upp að Spice Girls myndu koma saman á lokaathöfn Ólympíuleikanna. Í fyrstu fannst henni það fyrir neðan sína virðingu að koma fram með sínum gömlu vinkonum úr Spice Girls. Hún sagðist heldur ekki hafa neinn tíma því hún væri að undirbúa tískuvikuna og ala upp fjögur börn.
Þegar hún frétti hins vegar að því að þær myndu koma fram hvort sem hún væri með eða ekki skipti hún skoðun og ákvað að vera með. Þetta kemur fram á RadarOnline.com.
„Victoria sagði að það passaði ekki inn í stundaskrána sína. Hún væri á haus við að undirbúa næstu fatalínu og væri með ársgamalt barn. Þegar hún frétti af því að stelpurnar í Spice Girls ætluðu að koma fram, hvort sem hún væri með eða ekki, áttaði hún sig á því að þetta væri tækifæri sem kæmi bara einu sinni á ævinni,“ sagði heimildarmaður RadarOnline.com.
„Hún áttaði sig sem betur fer á því að það myndi líta skelfilega illa út fyrir hana ef hún yrði ekki með sínum gömlu vinkonum. Hún verður líka að átta sig á því að hún væri ekki það sem hún er í dag ef hún hefði ekki byrjað ferilinn í Spice Girls. Ég held hún sé búin að fatta það núna.“