Linda Pétursdóttir, eigandi Baðhússins, er glæsileg á myndunum sem munu birtast í nýjustu auglýsingaherferð fyrirtækisins í janúar 2013. Myndirnar voru teknar heima hjá henni á dögunum og sá Ásta Kristjánsdóttir um að mynda framkvæmdastjórann. Það er dálítill asískur fílingur á myndunum og hárið á Lindu virðist mun dekkra en vanalega. Hún segist þó ekki vera búin að lita það.
„Nei, reyndar ekki, þessi litur kom undan strípunum, þannig að nú er ég orðin dökkhærð og natural,“ segir hún.
Hvað gerir þú til þess að halda þér í formi í desember og yfir jólin? „Ég geri svo sem ekkert annað í desember en aðra mánuði, en ég æfi alltaf nokkrum sinnum í viku, lyfti lóðum og brenni, og svo mæli ég heilshugar með sána. En auðvitað þurfum við að passa okkur sérstaklega vel í desember, mikið um kræsingar og sykurát, muna að éta ekki á sig gat og halda áfram að hreyfa sig, þó ekki sé nema 15-20 mínútur á dag. Fara svo aftur í náttfötin, upp í sófa með góða bók. Og borða smá konfekt.“
Lumar þú á bjútíráði sem virkar vel í desember? „Að fá sér grænan heilsudrykk í morgunmat, þá ertu búin að fá allt það grænmeti sem líkaminn þarfnast yfir daginn ásamt því að byrja daginn á svona líka heilbrigðan hátt. Frábær byrjun á nýjum degi,“ segir Linda.