Nokkrir einstaklingar og fyrirbæri, allt frá heilsulindum upp í íslenskar snyrtivörur „meikuðu það“ á árinu. Bæði með því að því að heilla landsmenn, vinna einstök afrek eða vekja heimsathygli.
-
Baðhússdrottningin Linda Pétursdóttir vakti athygli á árinu hvar sem hún kom. Í ár hélt hún upp á 10 ára „edrúafmæli sitt“ og þykir aldrei hafa verið glæsilegri. Hún og dóttir hennar voru í haust myndaðar fyrir tímaritið VOLG.
-
Sólveig Eiríksdóttir heilsufrömuður vann keppnina Besti hráfæðiskokkur heims í febrúar en Solla Eiríks, eins og hún er jafnan kölluð, hefur komið hráfæðinu rækilega á kortið á árinu.
-
Segja má að Bláa Lónið hafi verið eitt umtalaðasta fyrirbæri Íslands á árinu. Landið var undirlagt heimsfrægum kvikmyndastjörnum og leikstjórum í allt sumar sem settu inn hverju twitter-færsluna á fætur annarri um ágæti lónsins. Þá sögðu þær frá upplifun sína af heilsulindinni í viðtölum erlendis, svo sem Teri Hatcher. Þá komst Bláa lónið á lista bandaríska tískutímaritsins Elle yfir átta flottustu heilsulindir heims. Í águst fór fyrirsætan Elettra Rossellini Wiedemann fögrum orðum um Bláa lónið í viðtali við septemberhefti ameríska Vogue.
- Hin 83 ára gamla Daphne Selfe, elsta ofurfyrirsæta í heimi, vakti heimsathygli þegar hún var valin nýrrar herferðar, Big Bra Hunt, á vegum bresku góðgerðarsamtakanna Oxfam og birtist á brjóstahaldaranum á síðum Vogue. Hún sagði leyndarmálið að baki farsælum fyrirsætuferlinum felast í síða hárinu, ódýra andlitskreminu og andúð hennar á Botox.
- Stundum er því fleygt að það þurfi ekki að kjósa best klæddu konu ársins frá ári til árs því Dorrit Moussaieff endi alltaf efst á lista. Dorrit er ein elskaðasta kona Íslands og því oft verið fleygt að hún sé stór hluti þeirra atkvæða sem falla Ólafi Ragnari Grímssyni í skaut í endurkjöri til forseta Íslands. Hverju svo sem því líður er hún óhrædd við að fara eigin leiðir, mætir í bleikum sokkum þegar henni sýnist svo. Í maí vakti það talsverða athygli þegar Dorrit opnaði facebook-aðgang til einkanota.
- Það var ekki lengi gert að eigna sér hina hálfíslensku og hálfindversku ofurstjörnu Angela Jonsson. Angela ólst upp á Indlandi en hún á íslenskan föður. Hér, hér og hér má lesa um nokkra af hennar sigrum.
- Hönnuðurinn Kristjana S. Williams, er að gera allt vitlaust í Bretlandi en umfjöllun um einstök verk hennar hefur birst í ótal blöðum. Kristjana hannaði forsíðu jólablaðs sem fylgdi Sunday Times í haust, stór vegglistaverk sem gerð voru fyrir London Design Festival og þá hefur hún verið í samstarfi við hinn þekkta húsgagnaframleiðanda George Smith og veggfóðursfyrirtækið Cole & Son.
- Óhætt er að fullyrða að íslensku húðdroparnir™ frá nýsköpunarfyrirtækinu Sif Cosmetics hafi hlotið lof hér heima og erlendis á árinu. Í sérstökum Íslandsþætti Mörthu Stewart, sem frumsýndur var í Bandaríkjunum í maí, kom fram að Martha Stewart notar íslensku húðdropanna™ frá nýsköpunarfyrirtækinu Sif Cosmetics til að viðhalda unglegu yfirbragði húðarinnar. Í nóvember var EGF húðnæringin fyrir líkamann valin ein af uppáhaldsvörum tímaritsins Vogue í Þýskalandi og blaðamaður Sunday Times í Bretlandi sagði lesendum sínum hreint út að fara og kaupa vöruna. í júní keypti leikkonan Kelly Preston, eiginkona John Travolta, íslensku húðdropana frá Sif Cosmetics á ferð sinni um Leifsstöð.
Dorrit Moussaieff keypti fyrsta Á allra vörum glossinn í Ljósinu, bækistöðvum starfseminnar.
Ernir Eyjólfsson
Daphne Selfe er elsta ofurfyrirsæta í heiminum.
Ljósmynd/John Swannell