„Það væri líka gaman að fá Booker-verðlaunin“

Kristín Tómasdóttir.
Kristín Tómasdóttir.

Kristín Tómasdóttir höfundur bókarinnar Stelpur geta allt er komin í mikið jólastuð.

Hvernig gengur jólaundirbúningurinn? „Prýðilega, þakka þér fyrir. Ég er ekki frá því að ég hafi aldrei verið svona vel undirbúin. Jólatréð er komið í hús, ég keypti fyrstu jólagjafirnar í nóvember og við erum búin að fara á eitt jólahlaðborð. Nú svo gengur jólasalan á nýju bókinni minni, „Stelpur geta allt!“, gríðarlega vel. Stúss sem fylgir jólabókasölu er orðið stór hluti af jólaundirbúningi á mínu heimili svo jólaandinn hér á bæ einkennist af sölutölum, upplestrum, kynningum og barnapössunarreddingum. Ég hlakka voðalega mikið til þegar bókalagerinn tæmist og jólaklukkurnar hringja jólin inn.“

Hvað kemur þér í jólaskap? „Jólaljós, hortensíur, mandarínur og sonur minn sem er að fatta jólin af alvöru í fyrsta sinn.“

Með hverjum eyðir þú jólunum? „Ég hef alltaf eytt jólunum með fjölskyldunni minni þ.e. foreldrum mínum, systrum mínum og þeirra börnum. Það verður þó breyting þar á í ár því ég ætla að eyða jólunum með tengdafjölskyldu minni. Það verður öðruvísi en alveg jafnhátíðlegt.“

Hvað borðar þú bara í desember? „Mandarínur. Við (ég og sambýlismaður minn) höfum verið að þróa hefð sem snýr að jólaísgerð. Ísgerðin fer fram nóttina eftir Þorláksmessu og við höfum prófað mismunandi uppskriftir og bragðtegundir. Bláberjaís var vinsæll í fyrra en í ár ætla ég að prófa að gera ís úr bókinni hennar Ebbu Guðnýjar, „Eldað með Latabæ“. Ég á samt ekki von á því að hann sé jafngóður og okkar.“

Gerir þú eitthvað sérstakt til þess að halda þér í formi yfir jólin? „Ég reyni að fara út að hlaupa og í ræktina en mér hefur ekki gefist sérstaklega mikill tími til. Ég er samt á miklum þeytingi og brenni örugglega slatta af kaloríum þannig en ég er farin að þrá meiri rútínu og tryllingslegt líkamsræktarátak!“

Hvað borðar þú á aðfangadag, jóladag og annan í jólum? „Rjúpur! Ég elska rjúpur og hef alist upp við þær á jólunum. Ég er rosalega fegin að tengdafjölskylda mín gerir það líka og þær eru alveg jafngóðar þar. Mér finnst eiginlega ekki vera jól án rjúpna. Mamma gerir alltaf rjúpusúpu sem ég held að sé frekar fátítt. Þegar allir taka fyrstu skeiðina af súpunni slær fullkominni þögn á heimilið (það gerist ekki oft!). Á jóladag borðum við oftast hangikjöt en annars eru engar fastar hefðir á þessum dögum.“

Hvað finnst þér best við jólin? „Nú orðið finnst mér strákurinn minn það besta við jólin. Hann er skíthræddur við jólasveininn og var alls ekki sáttur þegar Kjötkrókur kyssti mömmu hans á jólaskemmtuninni á Geysi um daginn. Svona lagað gerir jólin miklu skemmtilegri.“

Hvaða jólagúmmelaði er í mestu uppáhaldi hjá þér? „Hmm… ekkert sem mér dettur sérstaklega í hug. Ég reyni að hafa mikið af ávöxtum svo ég leiti frekar í þá en súkkulaðið. Þá koma mandarínur sterkar inn. Ég viðurkenni alveg að ég er svag fyrir Nóakonfekti en ég reyni samt að halda því fjarri heimilinu.“

Hvað langar þig í í jólagjöf? „Mig dreymir um að „Stelpur geta allt!“ komist ofarlega á metsölulistana fyrir jólin. Það væri líka gaman að fá Booker-verðlaunin (djók). Bókin hentar öllum aldri enda fjallar hún um mjög forvitnilegar stelpur sem hafa tekist á við ótrúlegar áskoranir. Mín besta jólagjöf væri að Íslendingar yrðu duglegir við að gefa hver öðrum þessa fallegu bók í jólagjöf. Ást og heimsfriður eru númer 2 og 3 á jólagjafalistanum.“  

Kristín Tómasdóttir er höfundur bókarinnar, Stelpur geta allt.
Kristín Tómasdóttir er höfundur bókarinnar, Stelpur geta allt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda