Fjölmiðlakonurnar María Sigrún Hilmarsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hjá RÚV og Helga Arnardóttir hjá 365 miðlum eiga ekki aðeins fréttamennskuna sameiginlega þessa dagana heldur bera þær allar barn undir belti. Það er því mikið barnalán í heimi fjölmiðla á Íslandi í dag.
Helga á von á frumburði sínum í haust með matreiðslumanninum Reyni Erni Þrastarsyni en Ragnhildur Steinunn og Haukur Ingi Guðnason íþróttasálfræðingur eiga fyrir stúlku sem kom í heiminn árið 2010. Stutt er síðan María Sigrún og Pétur Árni Jónsson, útgáfustjóri Viðskiptablaðsins, eignuðust sitt fyrsta barn en lítill drengur kom í heiminn í apríl í fyrra.
María Sigrún las kvöldfréttir nánast fram á síðasta dag meðgöngunnar en eignaðist drenginn sinn tveimur kvöldum eftir að hafa verið á skjám landsmanna. Það eru því aðeins um tuttugu mánuðir á milli systkina í aldri og óhætt að segja að það verður kátt í koti.