„Sýningin mín er lofgjörð til kvenleikans, lífs og vaxtar en er um leið ádeila á öfgafull fegurðarviðmið sem m.a. birtast í aukinni tíðni á lýtalækningum á píkum. Ég vona að sýningin skapi umræðu m.a. um skaðsemi öfgafullra fegurðarviðmiða sem geta bjagað sjálfsmynd og líðan kvenna sem og karla og dregið úr lífsgæðum þeirra. Okkur er öllum mikilvægt að vera gagnrýnin á skilaboð umhverfisins um hvað telst fagurt og eðlilegt hverju sinni og vanda sömuleiðis okkar eigin skilaboð þar að lútandi,“ segir Dagbjört Brynja Harðardóttir sem opnar sýninguna Píkublóm í sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri laugardaginn. Hún sýnir málverk sem eru unnin með olíu og akrýl ásamt innsetningu á píkublómum úr hekluðum pottaleppum og dúllum.
„Ég valdi að gera píkublóm úr pottaleppum og dúllum en ég hef alla tíð hrifist af þessu hversdagslega handverki sem af mörgum er talið prjál og pjatt. Sú natni og ástúð sem hefur verið lögð í dúllurnar finnst mér hrífandi og ég velti fyrir mér sögu, hugsunum og löngunum kvennanna sem hekluðu þær. Með því að breyta dúllunum í píkublóm og láta þær einnig birtast í formum og litum málverkana vil ég tryggja að þetta hverfandi handverk gleymist ekki. Ég vil einnig þakka konum í gegnum tíðina fyrir framlög sín og fórnir að bættri stöðu kvenna með loforði um að halda starfi þeirra áfram.“
Dagbjört Brynja Harðardóttir myndlistarkona er búsett á Akureyri og starfar sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Hún lauk fornámi við Myndlistarskólann á Akureyri árið 2001 og myndlistarnámi við Örebro Konstskola í Svíþjóð árið 2007. Auk þess er hún uppeldis- og menntunarfræðingur, kennari og lýðheilsufræðingur og endurspeglar gjarnan skilaboð sem varða velferð og heilsu fólks í list sinni. Dagbjört Brynja hefur unnið píkublóm í ýmsum myndum frá árinu 2006. Þau hafa skotið rótum víða um heim m.a. í Skandínavíu, Bandaríkjunum og Afríku. Píkublómin hafa verið unnin í pappamassa, ull og að þessu sinni má sjá þau í fyrsta sinn í málverkum og pottaleppum.