Lilja Pálmadóttir fór með lítið hlutverk í mynd eiginmanns síns, Baltasars Kormáks, en í 2 Guns er henni hent út úr bíl af eiturlyfjaforingja sem leikinn er af Edward James Olmos. Þegar ég hafði samband við hana sagði hún að þetta hefði eiginlega gerst óvart.
„Þetta var nú meiri tilviljun, en eitthvað planað! Þannig var að við vorum að keyra saman á tökustað, ég, Baltasar og Adam Siegel, sem er einn af framleiðendum myndarinnar. Baltasar var að velta þessu atriði fyrir sér á leiðinni en það var ekki inni í handritinu, en hann vildi bæta þessu inn í framvinduna. Þeir stinga upp á því fyrst í gríni að ég myndi gera þetta en svo varð sá brandari að alvöru,“ segir Lilja og hlær.
Lilja hefur ekki leikið í bíómynd áður því var þetta mikil upplifun fyrir hana.
„Mér var hent þarna seinna um kvöldið beint út í djúpu laugina en auðvitað var þetta bara mjög skemmtilegt! Og ekki verra að vinna með stórleikaranum Edward James Olmos sem var mjög elskulegur og umburðarlyndur við þennan amatör,“ segir hún í samtali við Smartland.