Leikkonan og söngkonan Bryndís Ásmundsdóttir prýðir nýjasta hefti MAN. Bryndís er nýskilin við Fjölni Þorgeirsson en sambandið stóð yfir í þrjú ár. Stuttu eftir að þau kynntust varð Bryndís barnshafandi. Meðgangan gekk ekki áfallalaust fyrir sig og fékk Bryndís blóðtappa og var hún hætt komin. Í framhaldi af því var hún greind með alvarlegt þunglyndi og lögð inn á geðdeild en útskrifaði sig sjálf samdægurs.
„Það tók lækninn ekki nema 17 mínútur að greina mig þunglynda og segja mér að rölta af kvennadeildinni yfir á geðdeildina. Þetta var undarleg framkoma þegar mér var gert að labba yfir á geðdeildina, með blómvendi í fanginu og engum datt í hug að fylgja mér. Það sem tók við þar var ekki aðlaðandi og var ég fljót að biðja um að fá að fara heim. Síðar hefur læknirinn beðist afsökunar á þessari framkomu en hún var undir vinnuálagi á þessum tíma. Ég var þó vissulega þunglynd og fékk alvarleg kvíðaköst,“ segir Bryndís.
Bryndís og Fjölnir skildu á dögunum og aðspurð hvaða lærdóm hún hefur tekið með sér eftir sambandsslitin verður Bryndís hugsi: „Út úr sambandinu fékk ég auðvitað heilmikla reynslu og yndislegan son sem ég ætla að passa vel upp á en auðvitað einnig mikla eftirsjá. Helsti lærdómurinn sem ég dreg af því er þó kannski að verða ekki alltaf svona yfirmáta ástfangin í hvert sinn sem einhver er góður við mig. Ég er alltaf flutt inn um leið og einhver lætur mér líða vel og fær mig til að hlæja,“ segir hún.