Söngkonan ástsæla Selma Björnsdóttir prýðir forsíðu MAN þennan mánuðinn en í blaðinu, sem kemur út á morgun, ræðir hún meðal annars verkefnin erlendis, viðbrögðin sem hún hefur fengið frá karlkyns samstarfsmönnum sínum, hvers vegna hún íhugaði að sækja um Borgarleikhús- og Þjóðleikhússtjóra og hvers vegna hún hætti við. Hún segist ekki þola þegar hún sé sögð dugleg enda sé henni engin vorkunn að búa ein með tveimur börnum og hún óttist ekki einveruna þó hún sé búin að kynnast manni og það samband sé á byrjunarstigum.
Selma segist ekki óttast einveruna og finnst mikilvægt að una sér vel einn.
„Samfélagið gerir að vísu ráð fyrir því að fullorðið fólk komi í pörum, það er viss pressa, þú passar ekki inn þegar þú ert einn, mér hefur til að mynda ekki verið boðið voðalega oft í mat síðan ég skildi því ég er ein og það er vandræðalegt fyrir einhverja. Mér finnst einnig að stundum sé komið fram við mig af vorkunn, fólk á það til að segja eitthvað í þessum dúr: „Vá! Þú ert svo dugleg!“ og „Hvernig ferðu að þessu? Þú ert nú meiri hetjan!“ Ég minni þá hina sömu á að ég á alveg uppþvottavél og þurrkara og konur á síðustu öld voru að eignast 10-12 króa og þvoðu í höndunum með kallinn á sjónum og enga fjarstýringu. Ég á nákvæmlega ekkert bágt þó ég búi ein með tveimur börnum. Það er bara mikil vinna en ég hugsa þetta þannig að fólk ætti ekki að eignast fleiri börn en það treystir sér til að sjá um eitt, því þú veist aldrei hvað bíður handan við hornið í lífinu,“segir Selma meðal annars í viðtalinu.
Hún íhugaði einnig að sækja um stöðu Borgarleikhús- og Þjóðleikhússtjóra.
„Ég íhugaði að sækja um Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið en komst að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki til í að binda mig. (...) Leikhússtjórastaðan er mikil ábyrgðarstaða og þú gerir ekkert annað á meðan þú sinnir því. Ég útiloka ekki að sækja um síðar en það kitlaði mig ekki nægilega í ár,“ sagði hún.