Fjölmiðlakonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir segir að Sindri Sindrason sé fallegasti karl sem hún veit um fyrir utan maka sinn. Þegar hún er spurð út í hinn fullkomna dag segist hún gera frekar einfaldar kröfur og nefnir góðan mat, vini og að fá að sofa út.
Hvernig kemur þú undan sumarinu? Bara nokkuð vel. Haustið er samt minn tími. Fallegri litir, hlýrri föt og maður býst ekki við neinu af veðrinu.
Hver var hápunktur sumarins? Fimm daga gönguferð um Hornstrandir. Ég þjáðist af alvarlegri þjóðrembu eftir að ég kom heim. Þvílík fegurð.
Hvernig verður haustið hjá þér? Ég er að fara að sýna fyrsta þátt í nýrri þáttaröð af Neyðarlínunni á Stöð 2 á sunnudag, afrakstur mikillar vinnu. Svo er ég að fara í vikuferð í sólina. Ég er svo spennt að ég gæti grátið.
Hvert er uppáhaldslandið þitt/borgin þín? Perú og Kaupmannahöfn.
Ertu dugleg að elda? Æi, nei. En ef ég hefði meiri tíma til þess tæki ég varla af mér svuntuna.
Horfir þú mikið á sjónvarp eða hlustar þú mikið á útvarp? Ég horfi á sjónvarp í skorpum og hlusta á útvarp í bílnum. En ég bý á Akranesi og eyði mjög miklum tíma í bíl svo líklega hlusta ég meira á útvarp en margir.
Áttu gæludýr? Já, ég á lítinn klippara hérna í vinnunni sem þarf mikla umönnun. Hann Jón Grétar. En ég hef ekki átt hefðbundið gæludýr frá því páfagaukurinn minn dó í hárri elli.
Hvaða flík verða allar konur að eiga í fataskápnum sínum? Ég verð sjálf að eiga góðar, svartar sokkabuxur.
Hvaða karl finnst þér sætastur (fyrir utan maka)? Sindri Sindrason. Það getur enginn keppt við það andlit.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Parmaskinka er eitt það besta sem hefur komið fyrir heiminn. Parmesanostur líka. Og Lindubuff. Er þetta gilt svar við spurningunni?
Borðar þú morgunmat? Já, ég hef aldrei getað skilið hvernig fólk getur sleppt því.
Klukkan hvað vaknar þú á morgnana? 7.20.
Hvernig er hinn fullkomni dagur í þínum huga? Að fá að sofa út, borða góðan mat og hitta skemmtilegt fólk. Ég er svo nægjusöm.
Hvernig Facebook-týpa ertu? Sú sem ég ætlaði aldrei að verða. Ég er að bjóða upp á allt of mikið af barnamyndum. Ræð bara ekki við mig. En ég reyni að bjóða upp á eitthvað barnlaust og sniðugt í bland.
Hver er draumurinn? Að verða betri í dag en í gær. Er það ekki ágætis markmið?