Öllum verktökum á útvarpsstöðinni X977 hefur verið sagt upp störfum. Þar á meðal Önnu Töru Andrésdóttur og Katrínu Ásmundsdóttur sem voru með þáttinn Kynlega kvisti á laugardögum.
„Vonbrigðin eru að sjálfsögðu mikil, næstu þáttaefni ákveðin og svona en við erum að íhuga framhaldið og sjá hvernig hægt er að snúa sér í þessu,“ segir Anna Tara.
Þegar hún er spurð að því hver séu næstu skref segist hún vera að reyna að átta sig á því sjálf.
„Okkur liggur hvað mest á hjarta í þessum málaflokki, þannig að þetta var í rauninni það sem okkur þótti auðveldast að fjalla um og lá beinast við,“ segir Anna. Katrín kinkar kolli og bætir við: „Fyrir mér eru þetta oft málefni sem ég veit ekki allt um en langar að vita meira um. Og ég get ekki verið ein um það. Þetta eru hlutir sem nauðsynlegt er að ræða og gefa gaum,“ segir Katrín í Sunnudagsmogganum.
Frænkurnar hafa rætt við ýmsa og má þar nefna Erp, sem spjallaði við þær um endaþarmsmök karla og Siggu Dögg, kynfræðing. „Um daginn töluðum við síðan við tvær stelpur sem sögðu okkur frá „slutshaming“, þær Björk Brynjars og Eydís Blöndal, en „slutshaming“ getur verið ýmiss konar. Björk og Eydís nefndu til dæmis að margar stúlkur og konur upplifa djúpa og jafnvel áralanga skömm eftir að þær fróa sér í fyrsta sinn.“