Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir eru skráð sem hjón ekki í samvistum í Þjóðskrá. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er með sömu skráningu í Þjóðskrá en það vakti mikla athygli þegar hann og eiginkona hans, Dorrit Moussaieff, fengu undanþágu á að vera ekki skráð með sama lögheimili.
Moussaieff flutti lögheimili sitt til Bretlands árið 2013 vegna skattamála.
„Hún og Ólafur Ragnar eru skráð í þjóðskrá sem hjón ekki í samvistum. Dorrit sagðist í yfirlýsingu hafa gert ráðstafanir á grundvelli skattalaga, til að geta sinnt vinnu sinni betur, sem og öldruðum foreldrum í London, þegar horfur voru á að Ólafur Ragnar yrði ekki lengur forseti.
Skattasérfræðingar gefa lítið fyrir þau rök að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimili til Bretlands til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækis foreldra sinna. Líklegra sé að þrengri reglur um heimilisfesti í Bretlandi séu ástæðan,“ sagði á vef ruv.is.
Á þeim tíma var haft samband við Sólveigu J. Guðmundsdóttur sviðsstjóra Þjóðskrársviðs hjá Þjóðskrá Íslands. „Til þess að gera undanþágu á þessu er til ein undanþáguheimild sem lýtur að Alþingismönnum þar sem heimild er til þess að þeir hafi annað lögheimili.“
Tímaritið Séð og Heyrt greinir frá því að Gísli og Nína séu alls ekki skilin. Þessi skráning sé eingöngu vegna vinnu hans í Bretlandi sem standi tímabundið yfir.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
mbl.is/Styrmir Kári