Fjölmiðlakonan Tobba Marinósdóttir og leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ritstýra Kvennablaðinu sem kemur út á prenti í nóvember. Vefurinn kvennabladid.is verður tveggja ára í nóvember en Kvennablaðið sjálft kom fyrst út 1895 undir stjórn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Blaðið var gefið út í hennar ritstjórn í 25 ár. Kvennablaðið verður prentað í 10.000 eintökum og verður því dreift frítt í verslanir og á kaffihús víða um land. Um er ræða sérstaka afmælisútgáfu.
„Ég er mjög stolt að fá að vera hluti af því að endurvekja eitt merkilegasta tímarit Íslands. Hugmyndin er einföld og tilgerðarlaus. Afþreying, fræðsla og húmor handa heimilum landsins. Í þessu blaði verða ekki mublur fyrir milljónir og tuttugu blaðsíður af snyrtivörum. Það er ekkert að slíkri umfjöllun – þetta verður bara ekki slíkt blað,“ segir Tobba Marinósdóttir annar ritstjóra blaðsins.
„Bríet var ekki bara hörkudugleg, framsýn og klár heldur var hún hrikalega fyndin. Við leyfum til dæmis gömlum húsráðum frá henni að fljóta með enda eiga þau enn vel við. Til dæmis fannst henni mikilvægt að mæður veldu sonum sínum félagsskap: „Þegar synir þínir eldast, áttu að velja þeirra félaga; annars gera þeir það sjálfir,“ segir Steinunn Ólína.
Soffía Steingrímsdóttir er framkvæmdastjóri blaðsins en auk hennar Tobbu og Steinunnar koma fjölmargir rithöfundar, blaðamenn, ljósmyndarar, listamenn, pistlahöfundar, stílistar, hannyrðakonur og matgæðingar að blaðinu.