„Ég hitti Kelly í Síle þar sem við vorum báðar að keppa í Vina Del Mar-sönglagakeppninni og við urðum strax góðar vinkonur enda Kelly algert yndi, opin og hlý og alveg ekta Nashwille-stelpa sem mér fannst sjúklega skemmtilegt að spjalla við,“ segir söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona um Kelly King sem er bandarísk söngkona sem er þjálfari og mentor söngkonunnar Ariana Grande sem er mjög heit um þessar mundir. Kelly King lenti í „skúffunni“.
Hera Björk er sem sagt flutt heim frá Síle og er full af orku. Hún segir að þær Kelly King komi úr ótrúlega ólíkum aðstæðum.
„Það sem henni fannst hvað merkilegast við mig og mína söngkonusögu var sú staðreynd að ég ætti 2 börn og væri samt í bransanum. Ég þurfti að útskýra fyrir henni landslagið í þessum efnum hér á Íslandi og benda henni á þá staðreynd að ég byggi nálægt mínum nánustu ættingjum. Og ekki síst að þaðan fengi ég mikinn stuðning. Hún aftur á móti býr í New York, langt frá sínu fólki og þar er tónlistarheimurinn mun harðari en á Íslandinu góða,“ segir Hera Björk.
Hún segir að Kelly King sé búin að vera í bransanum í „100 ár“ en hún hafi byrjað 10 ára gömul að syngja og koma fram á allskyns sýningum. Það leiddi hana til New York þar sem hún barðist við að koma sér áfram.
„Hún fékk að lokum breikið og komst á samning hjá Warner Music. Hún fór til Kína og varð í kjölfarið mjög þekkt þar og fer þangað ennþá og tekur „Drottningar-giggið“ fyrir stútfullum leikvangi af öskrandi aðdáendum. Hún var tilbúin með plötu hjá Warner en það fór því miður á annan veg en áætlað var þar sem þeir skiptu óvænt um stjóra og sá var víst ekki að fíla hana þannig að hún fór í „skúffuna“ góðu sem er víst full af frábærum listamönnum sem hafa lent þar af sömu ástæðu. En Kelly er töffari og lét ekki deigan síga og í dag treður hún upp nánast á hverju kvöld í NYC og kemur fram á allskyns tónleikum út um öll Bandaríkin. Hún er frábær söngkona og er með litlar 5 og hálfa attúnd í radd „range“ og hún hefur þannig vald á flaututónunum að maður stendur bara og gapir.“
Hera segist hafa prófað allt til að reyna að ná þessum tónum eins og Kelly King.
„Trúðu mér, ég er búin að reyna og reyna og reyna að ná þessu, en það er ekki sjéns þannig að það var bara eitt í stöðunni þannig að nú verða slegnar tvær flugur í einu höggi, Kelly kemur í heimsókn og svo hendi ég henni upp á svið að sýna listir sínar fyrir okkur Íslendinga.
Kelly er það sem við köllum „hokin af reynslu“ í bransanum og hún vinnur líka við það í dag að vera „coach & mentor“ fyrir unga söngvara. Ein af þeim sem hún hefur unnið hvað mest með er engin önnur en Ariana Grande og eru þær miklar og góðar vinkonur í dag. Þær eru eiginlega eins og systur í dag enda búnar að ganga í gegnum margt saman undanfarin ár á meðan Ariana var að fóta sig í þessum mjög svo krefjandi poppstjörnuheimi. Það hefur verið mjög gaman fyrir mig að fylgjast með ferlinum hennar Ariönu byggjast upp frá því að ég kynnist Kelly og gott til þess að vita að svona hæfileikabúnt eins og Ariana sé með þroskað, einlægt og hreinskilið hæfileikabúnt sér við hlið til halds og trausts,“ segir Hera.
Hún segir að Kelly starfi einnig sem umboðsmaður og framleiðandi hjá fyrirtækinu Philymack Management í Los Angeles. Þar vinnur hún með söngvurum eins og Demi Lovato, Nick Jonas, AJ Lehrman og Bea Miller.