Dr. Brynja Bragadóttir féll frá í blóma lífsins síðasta sumar. Nú hefur verið stofnaður minningarsjóður í hennar nafni gegn vinnustaðaeinelti. Lesendur Smartlands Mörtu Maríu þekktu Brynju vel af verkum hennar en hún skrifaði vinsæla pistla um vinnustaðaeinelti og sálfræði.
Stofnun dr. Brynju Bragadóttir hefur það markmið að vinna gegn vinnustaðaeinelti, en hún var frumkvöðull á sviði rannsókna og baráttu gegn vinnustaðaeinelti á Íslandi.
Í tilefni af stofnun stofnunarinnar verður efnt til tónlistarveislu í Bústaðakirkju sunnudaginn 31. janúar frá kl. 12.00 - 16.00.
Glæsilegur hópur listamanna kemur fram á tónleikunum þar á meðal systir hinnar látnu, Sólrún Bragadóttir sópransöngkona. Þar verða líka Bergþór Pálsson, Arnhildur Valgarðsdóttir, Anna Málfríður Sigurðardóttir, Þóra Fríða Sæmundsdóttir, Jón Svavar Jósefsson og Bartónar svo einhverjir séu nefndir.
Hildur Jakobína Gísladóttir og Arndís Ósk Jónsdóttir kynna frumkvöðlastarf Brynju og vinnustaðaeinelti og dr. Viðar Halldórsson fjallar um hvers vegna þeir sem skara fram úr verða oft fyrir einelti.
HÉR er hægt að lesa pistlana sem Brynja skrifaði og birtust á Smartlandi Mörtu Maríu.