Söngkonan Greta Salóme er mætt til Svíþjóðar en um aðra helgi stígur hún á svið í Ericsson Globe-höllinni þar sem hún tekur þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands. Í morgun birtist á forsíðu Fréttablaðsins fimm dálka mynd af henni sem hefur farið fyrir brjóstið á fólki. Á myndinni, sem tekin er aftan frá af sviðinu, sést hvernig rasskinnar söngkonunnar gægjast undan leðurstuttbuxum sem hún klæðist í atriðinu.
Fatnaður Gretu Salóme er mjög eggjandi ef svo má segja. Hann sýnir vel þjálfaðan og vöðvastæltan líkamann. Stuttbuxurnar sem hún klæðist í atriðinu eru ákaflega stuttar og svo er fyrirferðarmikið leðurkögur sem hún sveiflar til og frá í atriðinu. Dressið hannaði Greta Salóme í samráði við fatahönnuði en líklega gleymdist að gera ráð fyrir að dressið byði upp á þetta sjónarhorn þegar það var hannað. Það er að segja að bossinn gæti gægst undan buxunum í ákveðnum tilfellum.
Á samfélagsmiðlum er stór hópur dálítið hneykslaður á þessu; bæði á Fréttablaðinu fyrir að hafa birt myndina en líka á söngkonunni að hafa valið slíkt dress til að klæðast fyrir framan alla Evrópu.
Smartland Mörtu Maríu reyndi að ná tali af Gretu Salóme og spyrja hana út í klæðaburðinn og myndbirtinguna en það bar ekki árangur.
Blaðamaður náði þó tali af Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365, við vinnslu fréttarinnar sem sagðist ánægð með ljósmyndina.
„Þetta er góð og listræn mynd, það er mikil hreyfing í henni og hún sýnir vel flotta unga konu í flottum kjól.“