„Ég skældi þegar ég reyndi að syngja þjóðsönginn“

Sigríður Wöhler og Björn Bragi Arnarson á leiknum Ísland – …
Sigríður Wöhler og Björn Bragi Arnarson á leiknum Ísland – Portúgal. Ljósmynd/Instagram

„Það er ólýsanlegt að horfa á guttann sinn standa í þeim sporum sem hann hefur dreymt um í áratugi. Hannes var líklega um 10 ára þegar hann tilkynnti mér að hann ætlaði að komast í landsliðið þegar hann yrði stór. Hann missti ekki sjónar á þessu markmiði sínu. Þegar hann áttaði sig á því að öxlin sem hann hafði slasast á sem unglingur var orðin góð aftur setti hann í gang og hætti ekki fyrr en hann stóð á Laugardagsvelli í landsliðshópi. Ég er eins og gefur að skilja mjög stolt af honum og þessari þrautseigju sem hann býr yfir,“ segir Sigríður Wöhler, móðir Hann­esar Þórs Hall­dórs­sonar landsliðsmanns, í samtali við Smartland Mörtu Maríu þegar hún er spurð að því hvort hún sé ekki stolt af syni sínum. 

Hvernig leið þér á leiknum gegn Portúgölum?

„Leikurinn við Portúgali var skemmtilegur, ég reyni nú orðið að njóta þess að horfa á leikina sem Hannes spilar í stað þess að láta þá stressa mig upp. En ég skældi þegar ég reyndi að syngja þjóðsönginn og kökkurinn og titrandi hakan kom í veg fyrir að ég gæti tekið almennilega undir. Svo létti það reyndar aðeins á stressinu að ég var einnig í ömmuhlutverki á leiknum þannig að 3ja ára dóttur Hannesar tókst nokkrum sinnum að dreifa athyglinni og tíminn leið þannig hraðar en oft áður,“ segir hún. 

Sigríður Wöhler.
Sigríður Wöhler. Ljósmynd/Facebook

Sigríður dvelur í dásamlegu húsi í nágrenni við Lyon og nýtur lífsins á milli leikja. Hún sinnir ömmuhlutverkinu vel og ætlar að vera með barnabörnin í húsinu þegar Ísland spilar á móti Ungverjalandi svo kærasta Hannesar komist barnlaus á þann leik. 

„Leikmenn fá takmarkað að hitta fjölskyldurnar á meðan mótinu stendur. Ég ætla að fara á tvo leiki en við ömmurnar ætlum að horfa á leikinn við Ungverja í húsinu sem við dveljum í og passa börnin svo kærasta Hannesar komist barnlaus á einn leik. Hannes fékk tækifæri til að koma til okkar núna í vikunni og var hjá okkur í tvo tíma. Svo er verið að skipuleggja heimsóknarferð til hans á næstu dögum. Við reynum að hitta á hann og fara með börnin enda langt síðan hann fór í lán til Noregs og hefur því lítið getað umgengist börnin og kærustuna undanfarna mánuði. Þess á milli reynum við hér í einu helsta vínhéraði Frakklands í nágrenni Lyon að skoða okkur um og njóta þess að vera á þessu svæði. Við njótum þess að vera með fjölskyldu og vinum á þessum indæla stað og fá tækifæri að upplifa drauminn með Hannesi á hliðarlínunni.“

Nú fór Hannes nokkuð seint út í atvinnumennsku og virðist aldrei gefast upp og vera fullur sjálfstrausts. Er það uppeldinu að þakka? Var hann hvattur mikið áfram og hrósað mikið þegar hann var yngri?

„Hannes er þrjóskur og vinnusamur að eðlisfari og oft erfitt að fá hann ofan af því sem hann er búinn að ákveða. Við studdum Hannes alltaf í því sem hann tók sér fyrir hendur, pabbi hans var nú sérstaklega duglegur í boltanum með honum enda fyrrverandi markmaður hjá Fram á sínum yngri árum svo hann vissi hvernig ætti að taka umræðuna eftir leiki hvort sem þeir fóru vel eða illa. Við hrósuðum honum auðvitað fyrir það sem hann gerði vel og reyndum að vera uppbyggileg en jafnframt að hann yrði að standa og falla með því sem hann gerði eða sýndi hvort sem það var vel gert eða ekki. Vissulega tel ég að þarna spili uppeldið stóran þátt í því hvernig honum hefur vegnað. En þar vorum við svo sannarlega ekki ein að verki, Hannes var heppinn með þjálfara, félaga og að ég tali nú ekki um stóra og samstillta fjölskyldu sem hefur stutt hann í gegnum árin. Allt þetta skiptir gríðarlega miklu máli í uppeldi barna. Er ekki sagt að maður sé alinn upp af heilu þorpi? Mér finnst það eiga ágætlega við þegar kemur að fótboltaferli Hannesar, það hafa margir komið þar að en svo er það skapgerð og einbeittur vilji hans sem hefur knúið hann áfram að þeim stað sem hann er kominn á núna,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál