„Mér líður mjög vel en tilfinningin er óraunveruleg einhvern veginn og maður þarf bara að klípa sig til að átta sig á að þetta er staðreynd og við erum komin áfram. Hef aldrei farið á jafnspennandi leik – það var grátið og hlegið, þvílíkur tilfinningarússíbani en mér líður stórkostlega,“ segir Íris Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Lyfju og móðir Jóhanns Berg Guðmundssonar landsliðsmanns í fótbolta sem spilar á EM.
Hvernig er að horfa á barnið sitt spila á EM?
„Það er auðvitað einstakt og stundum ekkert auðvelt. En ég var mjög róleg fyrir þetta mót, enda vissi ég að hann er búinn að undirbúa sig vel andlega og líkamlega í langan tíma fyrir þetta draumaverkefni. En ég neita því ekki maður finnur fyrir kvíða á sama tíma og gleði – maður missir sig náttúrulega bara alveg og það er stutt á milli gleði og sorgar.“
Hvernig var hann sem lítill strákur, var þetta alltaf draumurinn?
„Hann byrjaði að sparka fótbolta um leið og hann gat gengið. Fimm ára hóf hann æfingar með Fylki og eftir að við fluttum í Kópavoginn þegar hann var 7 ára hóf hann að æfa með Breiðablik. Hann átti sér alltaf draum alveg frá því að hann var lítill að verða atvinnumaður í fótbolta. Ég spurði hann oft eins og foreldrar gera, hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór, svarið stóð ekki á sér og breyttist aldrei „atvinnumaður í fótbolta“. Hann er svakalegur keppnismaður og þolir ekki að tapa, hann var stundum mjög pirraður á vellinum sem lítill gutti og lét dómarana heyra það óspart þannig að maður bara tók fyrir andlitið. Það var ekki talandi við hann eftir tapleik í einhvern tíma og maður lærði það bara með tímanum að gefa honum svigrúm til að vinna úr því. Með aldrinum hefur hann þroskast og vaxið sem leikmaður, hann leggur sig ávallt 100% í verkefnin og hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir boltanum.“
Hvernig ólstu hann upp þannig að draumar hans myndu rætast?
„Ég hef alltaf tekið undir og kvatt hann í því sem hann hefur lagt sér fyrir hendur, í mínum huga var þetta alltaf raunhæfur draumur – markmiðið var skýrt og síðan hófst vegferðin, miklar æfingar og aukaæfingar. Hann mætti í fóltboltaakademíuna ungur að aldri klukkan 6 á morgnanna fyrir skóla, mætti alltaf fyrstur. Við fórum á alla leiki og stóðum á hliðarlínunni hvar sem er á landinu ásamt fleiri blikum og þetta hefur bara verið ævintýri frá upphafi að fá að vera þáttakandi í þessu. Hann hefur einnig ávallt hugsað afar vel um mataræði og alltaf borðað mikið hollt og gott. En þetta er ekki alltaf dans á rósum, 15 ára sleit hann krossbönd en þá bjuggum við í Englandi og hann var að æfa með Fulham, hann var frá boltanum í eitt ár og það tók verulega á. En það lýsir karakternum best að hann gafst ekki upp og var svo heppinn að vera með frábæran sjúkraþjálfara hjá Fulham sem hugsaði vel um hann – hann kom tvíefldur til baka eftir þessi meiðsl.“
Bjóstu við því að sonur þinn kæmist á EM?
„Já, ég verð að segja það að ég hafði alltaf trú á því, þessi 89–90 árgangur er einstakur og þeir eru vinir í raun frá því þeir voru litlir strákar margir hverjir. Eftir að við duttum út úr HM þá fann ég fyrir kraftinum og metnaðinum að komast á EM og það var alltaf raunhæfur möguleiki. Þeir ætluðu sér og það gat ekkert stöðvað það, þetta er einstakt að svo lítið þjóð nái svona langt en segir okkur að allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi.“
Hvað hefur þú gert á milli leikja? Hvernig verða næstu dagar?
„Það er nóg að gera og skoða enda höfum við verið á dásamlegum stöðum hér í Frakklandi – fyrstu dagana í Annecy og svo á Frönsku riverinunni – að sóla okkur og njóta. Núna erum við í París og ætlum til Nice á morgun, við fylgjum honum og þeim öllum alla leið enda ekki annað hægt. Frakkland er dásamlegt og ekki leiðinlegt að fá að taka þátt í þessu ævintýri. Svo hittum við svo marga sem við þekkjum og það er unun að sjá stuðninginn sem þeir fá frá Íslensku þjóðinni bæði hér úti sem og heima. Eftir leiki fer maður og skoðar alla fréttamiðla og les um leikinn og leikina. Þetta er bara brjáluð vinna en svakalega skemmtileg. Maður var alveg búinn á því í gær eftir leikinn í París og ég er bara enn að jafna mig, ætla að njóta dagsins í rólegheitum í París. Þetta er ótrúlegt en á sama tíma stórkostlegt að fylgjast með syni sínum og öllum þessum snillingum, þetta eru bara svo svakalega flottir strákar, eru bara alveg með þetta.“