Telma Rut Sigurðardóttir er 23 ára naglasnyrtifræðingur. Hún er í sambúð og hennar helstu áhugamál eru samkvæmisdans. Auk þess hefur hún mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, ferðalögum og hundum. Telma Rut er ein af þeim sem tekur þátt í Ungfrú Íslandi 2016. Keppnin fer fram í Hörpu 27. ágúst.
Hvað er búið að vera áhugaverðast í undirbúningi keppninnar?
Ég verð að viðurkenna að þessi undirbúningur kom mér skemmtilega á óvart. Það er mjög sjaldgæft að geta verið í svona stórum hópi kvenna sem hrósa, hvetja og hjálpa hver annarri – og eru einlægar í því. Ég hef lært heilmikið um sjálfa mig, samskipti og framkomu. Búin að eignast vini fyrir lífstíð og ég hlakka alltaf til að mæta í hvert skipti sem hópurinn hittist. Það eru forréttindi að hafa fengið að taka þátt í þessu ferli.
Þekkið þið einhvern sem hefur tekið þátt í Ungfrú Íslandi?
Já, ég þekki nokkrar stelpur sem hafa tekið þátt.
Hvað drífur þig áfram í lífinu?
Ég hugsa oft um það hversu heppin ég er. Ég er hraust, heilbrigð og búin að koma mér á góðan stað í lífinu. Ég er sjálfstæð, í góðri vinnu og get stundað áhugamálin mín af ástríðu. Jafnframt hef ég fullan stuðning fjölskyldu og vina í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Í augnablikinu finnst mér lífið leika við mig.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Ég ætla aldrei að verða stór – er sátt við sjálfa mig eins og ég er, en ég á mér draum um að fara í skóla og læra sálfræði. Hef alltaf haft áhuga á að vinna með fólki með geðraskanir. Það er mín framtíðarsýn.
Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott?
Fer í náttfötin og kúri með mínum uppáhalds.
Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn?
Ég reyni að fara um það bil 5-6 sinnum í viku í 1-2 tíma í senn – alltaf, allt árið.
Þurftir þú að hætta að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að æfa fyrir Ungfrú Ísland?
Nei, ég þurfti þess ekki en auðvitað velur maður alltaf hollari kostinn þegar stefnan er tekin á Ungfrú Ísland. Hef alltaf getað borðað það sem mig langar í.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Að dansa – það er besta tilfinning í heimi.
En það leiðinlegasta? Að skræla kartöflur.
Getur þú lýst þínum stíl?
Veit ekki alveg hvernig ég get lýst mínum stíl. Hann fer eftir veðri, tilefni og/eða skapi hverju sinni. Mér finnst ótrúlega gaman að prufa alls konar stíla en fylgi ekki neinum sérstökum stöðlum – ég er bara eins og mér líður best hverju sinni.
Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Nei. Fataskápurinn minn er fullkominn! Þ.e. ef frá eru taldir nokkrir pokar fullir af fötum sem einhverra hluta vegna hafa aldrei hafa verið notuð.
Hver er fyrirmynd þín í lífinu?
Langamma mín – hún var sjálfstæð kona með stórt hjarta – hrein og bein og kom hlutunum í verk. Hún var náttúrubarn og kunni að njóta dagsins. Hún var alltaf boðin og búin að hjálpa þeim sem á þurftu að halda. Þannig langar mig að verða.
Hvar ætlar þú að vera stödd í lífinu eftir 10 ár? Ef ég gæti skrifað handrit þá væri ég með fulla heilsu, sálfræðingur, móðir og eiginkona sem nýtur lífsins með fjölskyldu og vinum.
Hvað gerir þig hamingjusama?
Hamingja getur verið svo ótalmargt. Bæði stórt og smátt. Mér finnst mikilvægast að vera sátt við sjálfa mig og reyna að gera mitt besta í því sem ég tek mér fyrir hendur. Held að það sé lykillinn að góðri hamingju.