Hulda Margrét Sigurðardóttir er 22 ára. Hún starfar hjá Airport Hotel Aurora Star þar sem hún aðstoðar við hótelrekstur og vinnur ýmis störf eins og bókhald og netvinnslu. Hún er einhleyp en hennar helstu áhugamál eru útivist og hreyfing. Hún æfir blak, spilar tennis, fer á bretti og hefur unun af fjallgöngum. Hún er ein af þeim sem tekur þátt í Ungfrú Íslandi en keppnin fer fram á laugardaginn í Hörpu.
Hvað er búið að vera áhugaverðast í undirbúningi keppninnar? Allur undirbúningurinn í heild sinni hefur verið skemmtilegur. Mér finnst Dale Carnegie-námskeiðið hafa hjálpað mér mikið. Það gerði mig sjálfsöruggari og sterkari sem einstakling en svo kynntist ég stelpunum líka mikið betur því í Dale Carnegie er maður að opna sig svo mikið.
Þekkið þið einhvern sem hefur tekið þátt í Ungfrú Íslandi? Já vinkona mín hún Sóley Auður, hún hefur verið ekkert nema fyrirmynd mín og hjálpað mér í keppninni.
Hvað drífur þig áfram í lífinu? Að vera besta útgáfan af sjálfri mér og að ná settum markmið mínum hvetur mig áfram í að gera betur og setja markið hærra.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Mig langar að fara í nám erlendis og hef mikinn áhuga á markaðsfræði.
Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott? Mér finnst gott að fara á æfingu, slaka á í Laugar spa og enda á kvöldverði í góðum félagsskap.
Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn? Það er mjög misjafnt en ég reyni að fara sem oftast þegar ég hef tíma. Mér finnst virkilega gott að byrja daginn kl. 6 á morgnana á spinning í World Class, þá kem ég mun hressari og tilbúnari í daginn.
Þurftir þú að hætta að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að æfa fyrir Ungfrú Ísland? Nei, ég hef alltaf reynt að velja hollari kostinn en ég leyfi mér af og til en ég er alveg sérstaklega veik fyrir góðum eftirréttum. Það sem skiptir mestu máli er jafnvægi næringar og hreyfingar.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Ég hef alltaf verið mikil ævintýramanneskja, ég elska að prufa eitthvað nýtt eins og óvæntar uppákomur og ferðalög.
En það leiðinlegasta? Þegar ég kem heim eftir langan og erfiðan dag og þarf að þrífa af mér málninguna.
Getur þú lýst þínum stíl? Stíllinn minn er mjög fjölbreytilegur og klæðist ég í samræmi við stemmninguna, allt frá „business“ yfir í rokkarastíl.
Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Nei.
Hver er fyrirmynd þín í lífinu? Mamma og pabbi eru alltaf mínar helstu fyrirmyndir. Svo auðvitað hittir maður fólk á lífsleiðinni sem maður lítur upp til.
Hvar ætlar þú að vera stödd í lífinu eftir 10 ár? Maður veit aldrei hvað lífið býður upp á eða hvernig það þróast. Vonandi bara á góðum stað.
Hvað gerir þig hamingjusama? Að hugsa vel um líkama og sál.
Sýnt verður beint frá Ungfrú Íslandi á Smartlandi Mörtu Maríu. Keppnin hefst kl. 20.00