Ástríður Guðrún Einarsdóttir er 22 ára og starfar í móttökunni í Laugum Spa og í umönnun í Eirarhúsum. Hún er ein af þeim sem tekur þátt í Ungfrú Íslandi í ár en keppnin fer fram á laugardaginn í Hörpu. Hennar helstu áhugamál eru að hreyfa sig, ferðast, bakstur og eldamennska.
Hvað er búið að vera áhugaverðast í undirbúningi keppninnar? Ætli það sé ekki allt fólkið sem ég hef hitt og kynnst í þessu ferli, allt sem að þau gera og vinna við hefur mér fundist mjög áhugavert og skemmtilegt.
Þekkið þið einhvern sem hefur tekið þátt í Ungfrú Íslandi? Já, ég kynntist Örnu Ýr, Ungfrú Íslandi 2015, þegar ég byrjaði að vinna hjá World Class.
Hvað drífur þig áfram í lífinu? Það sem drífur mig áfram í lífinu er að elska það sem ég geri og njóta hvers augnabliks.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Ég er að stefna á að læra kokkinn og sérhæfa mig í eftirréttum.
Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott? Sest upp í sófa undir kósý teppi, borða súkkulaði og horfi á góða mynd.
Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn? Ég æfi 6 daga í viku, stundum tvisvar á dag, en hver æfing er yfirleitt í svona einn og hálfan til tvo klukkutíma í senn.
Þurftir þú að hætta að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að æfa fyrir Ungfrú Ísland? Það er ekkert sem ég þurfti að taka út úr mataræðinu, en ég valdi að vera á hreinu mataræði, ekki fyrir keppnina heldur fyrir sjálfa mig, það er ekki ákvörðun sem ég sé eftir, enda líður mér mikið betur.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Að baka og prófa mig áfram í eldhúsinu, ég gæti leikið mér að því allan daginn. Ég er alltaf með nýjar bragð-blöndur í höfðinu sem ég get ekki beðið eftir að prófa!
En það leiðinlegasta? Það er örugglega að vaska upp eftir alla tilraunarstarfsemina í eldhúsinu.
Getur þú lýst þínum stíl? Ég klæðist vanalega því sem mér finnst þægilegt og flott, yfirleitt þröngar gallabuxur og einhver kósý peysa eða bolur.
Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Eflaust!
Hver er fyrirmynd þín í lífinu? Það er hún amma mín heitin. Hún var alltaf svo góð við alla, kurteis, glöð og ákveðin. Þetta eru örugglega orðin sem lýsa henni best en ég gæti skrifað nokkrar blaðsíður yfir karakternum sem hún var!
Hvar ætlar þú að vera stödd í lífinu eftir 10 ár? Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér! En eins og plönin eru í dag að þá ætla ég mér að vera farsæll eftirréttakokkur, og vonandi eigandi eigin staðar.
Hvað gerir þig hamingjusama? Fjölskylda mín, kærasti og vinir. Ég er óendanlega þakklát fyrir þau og stuðninginn sem þau veita í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.
Ungfrú Ísland verður í beinni útsendingu á Smartlandi Mörtu Maríu. Keppnin hefst kl. 20.00.