Ester Elísabet Gunnarsdóttir mun fagna 19 ára afmæli sínu í nóvember. Hún er nemi á eðlisfræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík og útskrifast þaðan næsta vor. Með skólanum vinnur hún á Apótekinu sem þjónn. Ester Elísabet er einhleyp en hún hefur áhuga á ferðalögum, félagsstörfum, hreyfingu, lestri og förðun. Hún er ein af þeim sem tekur þátt í Ungfrú Íslandi en keppnin fer fram 27. ágúst í Hörpu.
Hvað er búið að vera áhugaverðast í undirbúningi keppninnar? Mér hefur fundist myndatökurnar ótrúlega skemmtilegar. Annars hef ég ekki verið eins mikið með í undirbúningi og hinar stelpurnar því ég kom aðeins seinna inn í keppnina.
Þekkið þið einhvern sem hefur tekið þátt í Ungfrú Íslandi? Nei, þekki enga persónulega.
Hvað drífur þig áfram í lífinu? Það að upplifa eitthvað skemmtilegt og spennandi, hafa gaman af lífinu, prófa nýja hluti og ögra sjálfri mér.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Mér finnst allt sem snýr að mannslíkamanum heillandi og myndi langa til að vinna við eitthvað tengt heilbrigðisvísindum svo sem erfðafræði eða heilbrigðisverkfræði.
Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott? Ef ég vil hafa það virkilega gott er það allra mikilvægasta að kaupa mér súkkulaðirúsínur. Því næst fer ég í náttföt, næ í sængina mína, planta mér í sófann, vel eitthvað skemmtilegt til að horfa á og ligg svo þar hamingjusöm með súkkulaðirúsínurnar mínar, og mjólk að sjálfsögðu, næstu klukkutímana.
Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn? Ég æfi um það bil fimm sinnum í viku í rúman klukkutíma.
Þurftir þú að hætta að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að æfa fyrir Ungfrú Ísland? Nei, því mánuði áður en ég kom inn í keppnina ákvað ég að byrja í fjarþjálfun og taka mataræðið í gegn svo ég var nú þegar að borða hollt.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Vera innan um vini, ferðast og upplifa eitthvað nýtt. Ég hef einnig mjög gaman af félagsstörfum. Síðastliðið skólaár sat ég í stjórn Framtíðarinnar og þetta skólaárið er ég svo ritstýra Skólablaðsins Skinfaxa sem er árbók Menntaskólans.
En það leiðinlegasta? Því er auðsvarað, að taka til í herberginu mínu.
Getur þú lýst þínum stíl? Mjög fjölbreyttur og nánast ekkert er „off limits“.
Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Hmm, ég held bara ekki, tók hann í gegn um daginn.
Hver er fyrirmynd þín í lífinu? Þær eru svo margar, allar sterkar og ákveðnar konur sem þora að láta í sér heyra og vera þær sjálfar eru fyrirmyndir mínar.
Hvar ætlar þú að vera stödd í lífinu eftir 10 ár? Vonandi hamingjusöm, í góðu starfi sem ég hef ánægju af og ekki væri verra að búa erlendis þar sem veðrið er gott allan ársins hring.
Hvað gerir þig hamingjusama? Fyrir mér felst hamingjan í litlu hlutunum. Að njóta líðandi stundar og þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
Sýnt verður beint frá keppninni á Smartlandi Mörtu Maríu kl. 20.00 á laugardagskvöldið.