Anna Lára Orlowska var krýnd Ungfrú Ísland á laugardaginn var í Hörpu. Hún er 22 ára, býr í Breiðholtinu og starfar á félagsmiðstöðinni Hundradogellefu. Ættarnafnið Orlowska kemur frá Póllandi. Anna Lára er á föstu með Nökkva Fjalari Orrasyni sem er í Áttunni. Þegar Smartland heyrði í Önnu Láru sagði hún að henni hafi sjaldan liðið betur.
Bjóstu við að vinna? „Nei, ekki þennan titil. Ég var alltaf að stefna að Miss people's choice því mér fannst ég geta unnið mér fyrir honum sjálf. Maður veit aldrei hverju dómararnir eru að leita að.“
Hvernig kom það til að þú tókst þátt í Ungfrú Íslandi? „Það eru margir sem þekkja mig út af kærastanum mínum og minni bestu vinkonu, en þau eru bæði þekkt á Íslandi. Ég vildi að fólk vissi hver ég væri. Að ég sé Anna Lára,“ segir hún.
Hverju mun sigurinn breyta fyrir þig? „Þetta mun breyta öllu til góðs og er strax búið að opna risastórar dyr fyrir mig.“
Hvernig verður veturinn hjá þér? „Ég er strax byrjuð að huga að undirbúningnum fyrir Miss World svo með því mun ég halda áfram að vinna í félagsmiðstöðinni.“
Hvað gerir þú til að slaka á? „Mér finnst rosalega gott að fara í Laugar Spa og slaka á þar.“