Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri Árnastofnunar, rekur stórt heimili. Alls eru börnin á heimilinu sjö talsins og því getur fjölskyldulífið verið fjörugt. Hún segir að það skipti öllu máli að allir gangi í takt. Eva María svarði nokkrum spurningum fyrir sérblaðið Börn og uppeldi sem fylgdi Morgunblaðinu á dögunum.
Hver er lykillinn að farsælu fjölskyldulífi?
Lykillinn að farsælu fjölskyldulífi er að hittast a.m.k. kvölds og morgna, rabba saman um daginn og veginn og sýna vilja til að hjálpast að. Foreldrarnir eru leiðtogar í þessu og þurfa að setja þessar stundir framarlega þegar þeir forgangsraða verkefnum hversdagslífsins.
Hvað skiptir mestu máli að hafa í lagi á stóru heimili?
Það sem skiptir mestu máli að hafa í lagi á stóru heimili er að allir gangi í takt. Að það séu allir aktífir á daginn og svo í hvíld á nóttunni. Það er gaman þegar öll fjölskyldan er tilbúin að ganga til náða þegar kvöldið færist yfir.
Hvernig er verkaskiptingin á heimilinu?
Verkaskiptingin á heimilinu: Foreldrarnir eru verkstjórar og elda matinn og þvo þvott allra nema elstu barnanna. Börnin hafa fast eitt kvöld í viku til að ganga frá í eldhúsinu, einn morgun í viku til að bera út blöðin. Hvert barn sér um að halda sínu herbergi hreinu. Endrum og sinnum kemur einhver fagmaður inn á heimilið og hjálpar til við þrif.
Áttu einhver góð ráð fyrir stjúpforeldra?
Góð ráð fyrir stjúpforeldra á ég engin. Ég hef fengið eitt ráð á dönsku sem ég er enn að melta: Ti stille!
Hvað er það dýrmætasta sem þú getur gefið börnunum?
Það dýrmætasta sem maður gefur börnum er hlý nærvera og tími. Allt annað er hjóm eitt.
Hvað finnst ykkur fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman?
Fjölskyldunni finnst yfirleitt mjög gaman að vera heima, poppa popp, fara í fótabað, horfa á mynd og hlaupa í gegnum úðara þegar veður leyfir. Ég nenni ekki að telja upp allar æsilegu skemmtiferðirnar, fjallgöngurnar, sundlaugaheimsóknirnar, sumarbústaðadvalirnar og grillpartíin sem börnin hafa misgaman af.
Hvaða sjónvarpsefni sameinar fjölskylduna?
Sjónvarpsefni sameinar yfirleitt ekki fjölskylduna. Ég man þó eftir myndinni The Impossible, sem allir horfðu hugfangnir á saman.
Uppáhaldsmatur fjölskyldunnar?
Uppáhaldsmatur fjölskyldunnar er kjúklingasalat ef meðaltalsaðferð er beitt. Ef litið er yfir lista einstaklinganna í fjölskyldunni þá tróna þar ofarlega: sushi, grillaður humar, nautakjöt með austurlenskum blæ, avókadófranskar, múslí, pestópasta og steiktur fiskur með sítrónupipar.