„Það verður örugglega sjokk að koma heim“

Arna Ýr Jónsdóttir Ungfrú Ísland 2015.
Arna Ýr Jónsdóttir Ungfrú Ísland 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungfrú Ísland 2015, Arna Ýr Jónsdóttir, er á heimleið frá Las Vegas eftir að hún hætti við þátttöku í keppninni Miss Grand International eftir að eigandi keppninnar skipaði henni í megrun fyrir lokakvöldið því hún væri of feit. Þegar Smartland náði tali af henni var hún að lenda í Los Angeles en þaðan mun hún fljúga til Íslands með WOW air á eftir. Flugfélagið WOW air bauð henni til Íslands svo hún þyrfti ekki að dvelja í Las Vegas fram í næstu viku eða punga út 120.000 krónum til að breyta flugmiðanum sínum. Arna Ýr segir að síðustu dagar hafi verið ein stór rússíbanaferð. 

„Þetta er búið að vera rosalegt en ég sé bara tækifæri í þessu. Rétt í þessu hafði BBC samband við mig og vildi fá mig í viðtal fyrir það eitt að standa á mínu,“ segir Arna Ýr í samtali við Smartland. 

„Ég held að ég átti mig ekki á því sjálf hvað þetta er stórt. Það verður örugglega sjokk að koma heim. Það er svo margt búið að gerast og ég hef ekki haft tíma til að fylgjast með öllum fréttum á Íslandi. Ég bjóst við því að þetta myndi vekja athygli og þá kannski bara í sólarhring. Ég bjóst ekki við því að þetta myndi halda áfram,“ segir hún. 

Arna Ýr Jónsdóttir.
Arna Ýr Jónsdóttir. Photo: Eggert Jóhannesson

Þegar Arna Ýr er spurð að því hvers vegna hún hafi viljað komast fyrr heim segist hún ekki hafa treyst sér til að vera lengur í Las Vegas og hún vildi heldur ekki fljúga með hinum fegurðardrottningunum en allar áttu þær að fara heim í lok vikunnar. Í millitíðinni reddaði María Lilja Þrastardóttir Örnu Ýri gistingu í Las Vegas. 

„Ég ætlaði að fara að breyta flugmiðanum mínum en það kostaði mig 120.000 krónur. Þá hafði WOW air samband við mig og bauð mér flug heim frá Los Angeles. Þau sem sagt borguðu fyrir mig heim. Algerir bjargvættir fyrir mig,“ segir hún. 

„Ég átti að fljúga til Seattle og þaðan heim. Það sem var ég svo hrædd við var að fljúga heim með hinum stelpunum úr keppninni og hitta eigendur keppninnar á flugvellinum. Ég þurfti að ná í vegabréfið mitt til þeirra. Ef ég hefði ekki verið með öryggisverði með mér hefðu þeir valtað yfir mig. Ég var ótrúlega heppin að fá þetta tilboð frá WOW air,“ segir hún.

Arna Ýr er ennþá í menntaskóla. Hún áætlar að útskrifast með stúdentspróf í vor. Hún er núna utanskóla en segist ekki hafa getað lært eins og hún hafi viljað vegna þátttöku í keppninni. 

Þegar hún er spurð að því hverju þetta atvik, að segja sig úr keppninni, muni breyta segist hún viss um að það muni breyta öllu. 

„Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé bara rétt að byrja. Það hafa svo margir áhuga á þessu málefni. Ég held að þetta eigi eftir að opna margar dyr - að hafa verið stelpan sem gerði þetta,“ segir hún. 

Svona í lokin, áður en við kveðjumst, þá spyr ég Örnu Ýri hvað hún sé þung. 

„59 kíló,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda