Ein ástsælasta söngkona landsins, Hera Björk Þórhallsdóttir, er að læra að vera fasteignasali. Þegar hún er spurð út í það hvers vegna í ósköpunum þá segir hún þetta eiginlega vera tilviljun, en samt ekki því hún hefur lengi verið kölluð „fasteignaperrinn“ af sínum nánustu.
„Ég var búin að vera að hugsa það í þónokkurn tíma að fara í nám og annaðhvort klára viðskiptafræðina sem ég byrjaði á hér í den eða byrja á einhverju nýju. En ég hafði aldrei leitt hugann að fasteignasalnum. Það er eiginlega magnað þegar ég pæli í því núna því að ég er svo að fíla þetta í dag. En ég var semsagt að selja íbúðina mína síðasta vor ásamt því að aðstoða foreldra mína við söluna á sinni eign og þá bara datt ég niður á þessa hugmynd þar sem ég sat á kaffihúsi í Kringlunni. Ég henti mér inn á netið að skoða þetta, bókaði fund með námsráðgjafa og var búin að skrá mig viku síðar í 2ja ára nám til Löggildingar Fasteigna og skipasala í Endurmenntun HÍ,“ segir Hera Björk.
Hera Björk byrjaði í náminu síðasta haust og er nú að vinna á Fasteignasölu Reykjavíkur.
„Mig langaði til að máta mig aðeins í þessu áður en ég færi að líta í kringum mig eftir stofu. Ég byrjaði svo á Fasteignasölu Reykjavíkur núna í febrúarbyrjun,“ segir hún og það fer ekki framhjá neinum að hún kann óskaplega vel við sig.
„Ég er að fíla þetta alveg í tætlur og er alsæl. Þetta er frábær vinnustaður með góðu fólki sem kann sitt fag þannig að ég er að læra heilan helling af þeim á hverjum degi. Mér finnst gaman að ögra sjálfri mér og þetta er klárlega ögrun fyrir mig enda mikil lögfræði og ákveðið regluverk sem þarf að fylgja og það kom mér alveg í opna skjöldu hvað ég er búin að heillast af lögfræðinni. Á dauða mínum átti ég von en ekki því.“
Það blundar sölueðli í Heru Björk og er hún ekki óvön viðskiptum. Hún rak verslunina Púkó og Smart á Laugavegi um tíma eða þangað til hún ákvað að breyta til og flytja til Chile.
„Það vita það allir sem mig þekkja að hin stóra ástríðan í mínu lífi á eftir söngnum eru hús og híbýli og allt sem þeim fylgir. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fasteignum og hef stundum verið kölluð „fasteignaperri“ af mínum nánustu því að mér þykir ekkert mjög leiðinlegt að skoða fasteignasíðurnar í fjölmiðlunum. Ég er oft kölluð til þegar mínir nánustu eru eitthvað að pæla því ég á mjög auðvelt með að sjá fyrir mér hvernig hægt er að breyta og bæta rými til að aðlaga þau nýjum íbúum. Ég veit ekki hvort ég hugsa þetta endilega sem sölustarf, tengi þetta frekar við miðlunarþörfina hjá mér og elska að hugsa hvað henti hverjum fyrir sig og máta fólk mjög oft inn í rýmin og staðsetninguna í huganum þegar ég hitti það. Það er nefnilega svo misjafnt hvað hentar hverjum og ég held ég sé með ágætis innsæi sem mun hjálpa mér við það að aðstoða fólk við það að finna drauminn sinn þegar kemur að fasteignum.“
Hvernig fasteignasali ætlar þú að vera?
„Ég ætla að vera góður, hreinn og beinn fasteignasali og vanda mig við það að sinna starfi mínu af natni og ástríðu fyrir mína viðskiptavini. Þetta er snúið starf þar sem að fasteignasalar þurfa að bera hag bæði seljanda og kaupanda fyrir brjósti og það ábyrgðarhlutverk tek ég alvarlega. Það sem heillar mig alveg einstaklega við þetta starf er sú staðreynd að flestir sem eru í þessum hugleiðingum standa á tímamótum í sínu lífi, stundum er tilefnið gleðilegt eins og stækkun/fjölgun í fjölskyldunni, ný atvinna, ný sambönd og svo framvegis. En stundum er ástæðan önnur og erfiðari eins og þegar um skilnað eða andlát er að ræða. Þetta gerir það að verkum að maður þarf að búa yfir góðum samskiptahæfileikum, eiga auðvelt með að hlusta og hjálpa fólki í gegnum þessi tímamót á sem farsælastan máta. Og þar sem ég elska breytingar og líður hvergi betur en hangandi í lausu lofti að þá held ég svei mér þá bara að ég geti orðið ágæt í því að leiða fólk yfir „brúnna“ frá einum stað til annars af virðingu og helst með bros á vör.“
Hvað skiptir máli þegar fólk selur fasteign?
„Að það sé virkilega tilbúið til þess að taka það skref og geri það vel upplýst um hvað það feli í sér að selja heimili sitt, að allt sé uppi á borðum og að þetta verði ánægjuleg upplifun. Það sem virkilega þarf að vera á hreinu er hvað hlutirnir kosta þegar upp er staðið, hversu langan tíma ferlið getur tekið í gegnum lánakerfið og bara almennt gott upplýsingaflæði á milli allra aðila þ.e. seljanda, fasteignasala og kaupanda. Fasteignaviðskipti eiga að vera ánægjuleg upplifun.“
Þegar Hera Björk er spurð að því hvernig hún hafi það þessa dagana segist hún sjaldan hafa haft það betur.
„Ég er spennt og upprifin yfir þessari nýju stefnu í mínu lífi og hlakka til að prófa mig áfram á þessum vettvangi samhliða söngnum og söngkennslunni.“
Hvað drífur þig áfram?
„Draumarnir og markmiðin mín drífa mig fram úr á hverjum degi. Ég er ástríðudrifin manneskja og það verður að vera gaman, annars er leiðinlegt og ég er farin að leita að fjörinu annarsstaðar. Ég er í dag að sinna öllum mínum ástríðum og þannig vil ég hafa þetta enda kynnist ég endalaust nýju og frábæru fólki sem mig langar að „dansa“ við. Það er varla hægt að biðja um meira, nema kannski að koma heilsunni í betri farveg og kveðja nokkur kíló svo að maður geisli af heilbrigði á þessum hlaupum,“ segir hún og hlær!