Aldís var í brúðkaupi Pippu og James

Aldís Kristín Firman Árnadóttir, sem er á myndinni til vinstri …
Aldís Kristín Firman Árnadóttir, sem er á myndinni til vinstri í bláum kjól, var gestur í brúðkaupi Pippu og James um helgina. Ljósmynd/Samsett

Gleðin var við völd á laugardaginn þegar Pippa Middleton gekk að eiga James Matthews í Sankti Mark kirkjunni í Berks­hire. Á meðal gesta var Aldís Kristín Firman Árnadóttir viðskiptalögfræðingur og framkvæmdastjóri Lilou et Loic. Hún og eiginmaður hennar, kappakstursmaðurinn Ralph Firman, eru vinir brúðhjónanna. Það kom í hlut Ralphs að vera einn af svaramönnum vinar síns í brúðkaupinu. Svaramenn voru nokkrir, þar á meðal bróðir hans, Spencer Matthews. 

Aldís Kristín Firman Árnadóttir er hér ásamt Donnu Air, sem …
Aldís Kristín Firman Árnadóttir er hér ásamt Donnu Air, sem er kærasta James Middleton, Önnu Ridderstad og Lucy Lewis.

Ég hringdi í Aldísi til Lundúna þar sem hún býr ásamt Ralph og tveimur börnum þeirra. Vinskapur hjónanna við Pippu og James er mikill en James var svaramaður Ralphs í brúðkaupi þeirra Aldísar árið 2008. James hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og það hefur reyndar Pippa líka gert. Þess má geta að Ralph hjólaði þvert yfir Bandaríkin með Pippu og James árið 2014 til styrkar Michael Matt­hews Foundati­on. 

Hér er Ralph Firman lengst til vinstri ásamt Pippu og …
Hér er Ralph Firman lengst til vinstri ásamt Pippu og James þegar þau hjóluðu þvert yfir Bandaríkin.

Brúðkaup Pippu og James var morgunbrúðkaup. Athöfnin sjálf átti að hefjast kl. 11.30 en hún tafðist um 20 mínútur því brúðurin var of sein. Þegar hún mætti voru allir sestir en í fylgd með henni voru brúðarmeyjar- og sveinar. Karlotta og Georg, börn Katrínar hertogaynju af Cambridge og Vilhjálms prins voru í þeim hópi og voru öll börnin klædd í stíl sem var krúttlegt. 

Aldís segir að brúðkaupið hafi verið mikil upplifun en hún hafi ekki áttað sig á því að það yrði svona mikið fjölmiðlafár í kringum það. Hún segir jafnframt að öryggisgæsla hafi verið mikil.

„Þetta var rosalega vel skipulagt og tekið strangt á öryggismálunum," segir Aldís. Þegar ég spyr hana út í tímasetninguna á brúðkaupinu og hvort það tíðkist í Bretlandi að halda morgunbrúðkaup segir hún svo ekki vera. Það hafi tíðkast á árum áður og því hafi þessi tímasetning verið frumleg. Aldís mælir þó með því enda var þetta meira eins og brúðkaupshátíð en veisla því í raun var boðið í tvær veislur. 

„Athöfnin sjálf var falleg og ákaflega vel skipulögð og svo mikið í þeirra anda. Þar var lesið upp úr Alkemistanum, sem er svo lýsandi fyrir þeirra samband og svo kom drengjakór og söng. Eftir athöfnina gengu gestir með þeim yfir í hús sem tilheyrir kirkjunni. Það hús er í eigu vinahjóna foreldra hennar,“ segir Aldís. 

Aldís tekur það fram að farsímar hafi ekki verið leyfðir. „Þetta var þannig gestalisti að það var enginn að taka selfie,“ segir Aldís og brosir. 

Fyrri brúðkaupsveislan var í formi standandi hádegisverðar en henni lauk rétt eftir klukkan þrjú um daginn. 

„Þá fékk fólk að fara heim og undirbúa sig fyrir hina brúðkaupsveisluna sem var haldin í bakgarðinum hjá foreldrum Pippu. Þar var boðið upp á mat, drykki og mikið stuð. Við fórum heim klukkan fimm um nóttina og þá voru brúðhjónin ennþá í fullu fjöri ásamt foreldrum sínum,“ segir Aldís. 

Eins og fyrr segir hefur James komið margoft til Íslands en Pippa kom einu sinni i mjög stutta laxveiðiferð og bíður eftir næstu ferð sem er fyrirhuguð med Aldísi og Ralph næsta sumar. Það var því eiginlega ekki hægt að gefa þessum hjónum neitt annað en Íslandsferð og það gerðu Aldís og Ralph. Dagsetning hefur þó ekki verið ákveðin. 

„Þau eru miklir áhugamenn um Ísland og svo þykir Pippu hangikjöt mjög gott. Ég hef sent henni hangikjöt til Bretlands,“ segir Aldís. 

Talið berst að matreiðslu og segir Aldís að hún sé ákaflega hrifin af íslenskum mat og eldi mikið af honum. Sú ástríða hefur smitast yfir í vini þeirra. 

„Ég á allar Hagkaupsbækurnar og gott safn af Gestgjafanum því ég ligg yfir íslenskum uppskriftum. Rétt áður en James bað Pippu þýddi ég fyrir hana íslenskar uppskriftir en hún átti von á gestum í mat og ætlaði að hafa hangikjöt, uppstúf og heimagert rauðkál með. Hangikjötsuppskriftin var úr veislubók Hagkaups, og henni tókst einstaklega vel til. Það er gaman að segja frá því að ég gaf henni Hávamál í „hostess“ gjöf í þessu matarboði sem ég var gestur í. Ég var svo fengin til að þýða Hávamál og lesa upp fyrir gesti á íslensku og ensku. Því fylgdi að ég sendi þeim svo Hávamál í kjölfarið á ensku,“ segir Aldís. 

Árið 2001 flutti Aldís til Bretlands til þess að fara í lögfræðinám. Hún kláraði það ásamt master í viðskiptalögfræði. Svo kynntist hún Ralph, giftist honum og síðan hefur lífið leitt hana áfram. Hjónin bjuggu um tíma í Mónakó. Hún segist ekkert vera á heimleið enda eiga þau hjónin tvö börn og hafa komið sér vel fyrir í Bretlandi. 

„Við erum búin að vera gift í níu ár, en búin að vera saman svolítið lengur. Við giftum okkur á Íslandi og James var svaramaður í okkar brúðkaupi og er hann einnig guðfaðir litla sonar míns.“

Aldís er meðeigandi í fyrirtæki sem heitir Lilou et Loic og framleiðir og selur sápur, ilmkerti og lúxus handáburði svo eitthvað sé nefnt. Síðustu tvö ár hefur hún tileinkað fyrirtækinu krafta sína en áður starfaði hún á lögmannsstofu. 

„Við höfum gert ilmi fyrir bresku kóngafjölskylduna, það hefur ekkert með tengsl mín við Pippu að gera, það samstarf kom til miklu fyrr. Fyrirtækið gengur vel og ég kann vel við mig í þessu starfi. Fyrirtækið stækkaði mikið á síðasta ári og nú erum við að undirbúa opnun á eigin búð en vörurnar eru nú þegar seldar í nokkrum verslunum eins og Harvey Nicols. Svo eru innanhússhönnuðir duglegir að versla við okkur fyrir kúnnana sína,“ segir Aldís. 

Öll samtöl neyðast til að taka enda og því kveð ég Aldísi. Við hefðum getað talað saman fram á nótt um ástina, hangikjötsuppskriftir og dásemdir heimilisilma. Það bíður betri tíma. 

Hér er Aldís Kristín Firman Árnadóttir ásamt Pippu.
Hér er Aldís Kristín Firman Árnadóttir ásamt Pippu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda