Ásdís Rán Gunnarsdóttir segist hafa orðið sorgmædd þegar hún frétti að Hugh Hefner væri látinn en hún er líklega eini Íslendingurinn sem hefur heimsótt búgarð hans í Los Angeles.
„Það voru haldnar stórar og miklar veislur þarna,“ segir Ásdís Rán í samtali við Svala og Svavar í morgun þegar þeir slógu á þráðinn til hennar. Eins og fram kom í gær er Svali að fara að flytja til Tenerife en þátturinn Svali og Svavar verður á dagskrá á K100 næstu mánuði.
Ásdís Rán prýddi forsíðu Playboy fyrir nokkrum árum.
„Ég var búin að neita nokkrum sinnum. Ég var aðallega feimin því það voru allir svo spéhræddir á Íslandi. Þetta er öðruvísi í dag. Í útlöndum þykir flott að vera í Playboy,“ sagði Ásdís í viðtalinu.
Hún segist hafa ákveðið að stökkva á þetta tilboð að lokum og sér ekki eftir því.
„Ég var ánægð með myndirnar og blaðið seldist upp.“
Ásdís Rán segist alls ekki hafa tapað á því að prýða forsíðu Playboy.
„Þetta lyfti mínum ferli upp á næsta plan. Ég var óviss hvort þetta yrði gott eða slæmt en í mínu tilfelli var það gott. Ég fékk miklu meira að gera. Ég breyttist í stórstjörnu.“