Selma Björnsdóttir leikstýrir Halloween Horror Show sem haldið verður í Háskólabíói 27. og 28. október. Hún er önnum kafin í undirbúningi þessa dagana og segir að Íslendingar geti heldur betur búið sig undir svakalega sýningu þar sem öllu er tjaldað til.
Selma segir að þessi sýning sé bland af öllu því hrottalegasta sem hægt er að hugsa sér. „Þarna er ekki bara rokk og ról heldur blóð, myrkur, hræðsla, stuð og mikil gleði,“ segir Selma.
Það er því óhætt að segja að sýningin hreyfi við öllum tilfinningum fólks. Selma segist hafa kynnst Halloween í gegnum börnin sín því þessi siður hafi ekki verið kominn til Íslands þegar hún var sjálf að alast upp. Hún segist þó halda mikið upp á Halloween.
„Mér finnst gaman að upplifa Halloween í gegnum krakkana mína. Þeim finnst gaman að klæða sig upp og fara og ganga um hverfið og syngja um grikk eða gott.“
Er sýningin of hryllileg fyrir þá sem verða auðveldlega hræddir? „Já, ég myndi ekki mæta með börnin mín á hana. Viðkvæmir verði a.m.k. búnir að undirbúa sig andlega,“ segir hún.
Í sýningunni verða lög á borð við Thunderstruck, Zombie, Fljúgum hærra, Creep, Welcome to the Jungle svo eitthvað sé nefnt. Þegar Selma er spurð að því hverju hún vilji ná fram með sýningunni segist hún vonast eftir að gestirnir fái gæsahúð.
„Upplifun sem teygir sig út fyrir tónleikaupplifun að fólk fái öðruvísi gæsahúð og öðruvísi hroll.“
Fyrir hvaða aldurshóp er sýningin?
„Þá sem þora! En ekki lítil börn, það er á hreinu.“