Sigríður Andersen, lögfræðingur og dómsmálaráðherra, byrjaði að vinna með skólanum þegar hún var 13 ára og segir að vinnan gefi henni margt fyrir utan salt í grautinn. Ef hún gæti tekið með sér leynigest í matarboð yrði Laddi fyrir valinu.
Hvernig myndir þú lýsa sjálfri þér?
„Hlý, ákveðin, raunsæ, varkár, mannblendin, hæfilega löt en þó drífandi þegar ég nenni. Hljómar allt auðvitað frekar leiðinlegt.“
Hvað gefur vinnan þér?
„Ég byrjaði nú að vinna 13 ára með skóla og hef í sjálfu sér ekki unnið á mörgum stöðum. Raunar bara á þremur stöðum síðan ég útskrifaðist úr lögfræði 1999, Aþingi meðtalið. Mér hefur liðið vel á öllum þessum vinnustöðum og átt gott samstarf við alla vinnufélaga. Og ætli það sé ekki það mikilvægasta sem vinna almennt gefur mér, fyrir utan salt í grautinn, félagsskap af samstarfsfólki og daglega samveru með fólki. Ég held að þetta eigi nú við um flest okkar. Þess vegna er það svo mikilvægt að tryggja á hverjum tíma næga atvinnu fyrir alla. Ekki bara af efnahagslegum ástæðum heldur ekki síður vegna félagslegra og heilsufarslegra áhrifa sem langvarandi atvinnuleysi hefur í för með sér.“
Ef þú mættir taka með þér leynigest í matarboð, hver yrði fyrir valinu?
„Laddi. Þannig gæti ég komið með 20 gesti í einum.“
Ertu dugleg að láta drauma þína rætast?
„Ég er ekki viss um að það sé gott að eiga marga drauma sem eiga eftir að rætast þó að það sé alltaf gott að stefna að einhverju markmiði. Mér hefur þó fundist skemmtilegast þegar lífið fer með mig alveg óvænt inn á óskipulagðar slóðir.“
Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnunni?
„Ráðherrar og stjórnmálamenn eru kannski flestir alltaf í vinnunni í þeim skilningi að maður er alltaf með hugann við þjóðmálin og þau mál sem maður er að sýsla með á hverjum tíma. Ég gef mér hins vegar alltaf tíma fyrir ræktina, skokkið og sundið og helst með fjölskyldunni svo ég nái samlegðaráhrifum eins og það heitir í rekstrarfræðum. Ég vildi óska þess að ég hefði tíma til að prjóna og lesa meira. Hey, þar eru nú kannski komnir draumar sem þurfa að rætast.“
Hvernig lífi lifir þú?
„Ég á tvær dætur á grunnskólaaldri sem stunda fimleikana af miklu kappi og okkar daglega líf tekur mikið mið af því og er í nokkuð föstum skorðum.“
Hvað gerir þig hamingjusama?
„Samvera með fjölskyldunni auðvitað og vinum. Ég tala nú ekki um þegar eitthvert þeirra eldar fyrir mig.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Nei. Ég ber sem betur fer gæfu til þess að þekkja mín mörk. Svo er það svefninn. Fái maður nægan svefn að jafnaði getur maður tekist á við næstum allt. Ég held mjög upp á nætursvefninn.“
Hvað gerir þú til að vinda ofan af þér?
„Regluleg líkamsræktin og heitu pottarnir í laugunum halda mér hæfilega afslappaðri allt árið um kring.“
Uppáhaldsmatur?
„Vel lagaður fiskur, sérstaklega þorskur, verður alltaf að ánægjustund. Já og sjávarréttir almennt eru í uppáhaldi hjá mér.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Ég reyni að fara í ræktina kl. 7 og vera búin áður en dætur mínar fara í skólann. Ekki það að þær þurfi á mér að halda á þessum tíma sólarhringsins. Pabbi þeirra nestar þær í skólann. Ég hef stundum hlaupið i skarðið en þeim finnst ég smyrja brauðið asnalega og almennt ekki kunna nokkuð til verka í nestismálum. Það er ekki útilokað að þær hafi eitthvað til síns máls. Ég hef aldrei sjálf verið mikil nestismanneskja. Fer jafnvel á fjöll illa nestuð.“
Hvernig skipuleggur þú daginn?
„Ég skipulegg dagana mína minnst sjálf. Þar nýt ég góðrar hjálpar einstaks fólks, til dæmis míns ágæta ritara sem raðar embættiserindum mínum sem ráðherra listilega vel inn á milli skyldustarfa á Alþingi. Í ráðuneytinu tókum við nýlega upp fundarlausan dag í tilraun til þess að gera hin daglegu störf sérfræðinganna enn árangursríkari. Ég kemst þó ekki hjá fundum á hverjum degi en finnst mikilvægt að taka frá allt að hálfan dag á viku án funda.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Ljómandi vel. Ég hlakka til að komast á skíði. Ég náði upp góðri rútínu með fjölskyldunni í Bláfjöllum síðasta vetur og held svei mér þá að það geti borgað sig fyrir mig að fá árskort í vetur. Og vonandi fáum við ekki vinstri ríkisstjórn með tilheyrandi skattahækkunum.“