Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gekk í hjónaband 19. ágúst á sólríkum degi í Akraneskirkju. Hún segir að það sé ómetanlegt að vera vel giftur og ekki síst í kosningabaráttu.
„Það er ómetanlegt að vera vel giftur í kosningabaráttu eins og öðrum baráttum sem fólk heyjar,“ segir hún.
Þórdís klæddist fallegum kjól á brúðkaupsdaginn sem sérsaumaður var á hana í Eðalklæðum.
„Við Malen í Eðalklæðum unnum það í sameiningu að kjóllinn yrði svo gott sem fullkominn. Hún auðvitað sá um alla vinnuna og er ótrúlega fær í sínu en ég kom að því í máli og myndum hvernig ég sæi hann fyrir mér. Hún las nánast hugsanir mínar og kjóllinn er algjörlega meiriháttar,“ segir hún.
Aðspurð hvað hafi staðið upp úr á stóra deginum segir hún að fá að fagna með fólkinu sínu skipti miklu máli.
„Að sjá allt þetta fólk sem okkur þykir vænt um eyða deginum með okkur er það sem stendur upp úr. Það er kannski klisja en það er þannig. Allir glaðir, í sínu fínasta pússi að njóta þessa stóra dags með okkur var bara svo gaman. Við fengum æðislegt veður, maturinn var meiriháttar, ræðurnar yndislegar, mikið fjör og dansað og ég vildi bara geta spólað til baka og ýtt aftur á play og gert allt alveg eins.“
Þórdís er á kafi í kosningabaráttu þessa dagana. Þegar hún er spurð að því hvernig hún haldi sér á floti í gegnum þetta tímabil segir hún að fátt jafnist á við góðan nætursvefn.
„Í svona kosningabaráttu fara hlutirnir úr skorðum en ég held mér almennt á floti með því að sofa vel á nóttunni, vakna glöð og ná smá tíma með krökkunum mínum. Þau halda manni á jörðinni og minna mann á hvað skiptir máli og að þetta fari allt einhvern veginn. Annars finnst mér forréttindi að fá að sinna þessum verkefnum sem ég sinni. Pólitíkin er áhugamál og ástríða og þá hefur maður einfaldlega meiri orku í þessa hluti. Því verkefnin færa manni orku þótt þau taki líka orku frá manni. Það gerir allt sem er þess virði að gera.“
Hún segir að það skipti einnig miklu máli að hreyfa sig.