„Jæja, rétt að koma með stöðu mála eins og hún er núna í ferlinu. Við erum búin að vera með íbúðina okkar á sölu og finnum mikið fyrir því að markaðurinn er rólegur og fólk ekki að flýta sér mikið að kaupa. Ég er hinsvegar mikið til í að flýta mér að selja, langar svo að klára þann feril svo ég geti einhvernveginn verið rólegri í skinninu með þetta allt. Fjölmörg verkefni eftir en svo fáir dagar í brottflutning,“ segir Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður í sínum nýjasta pistli:
Við liggjum á netinu alla daga að finna íbúð úti og erum til skiptis í sambandi við vini sem búa á Tenerife og svo „íbúðarfinnara“, það er víst starf sem hægt er að vinna við þarna úti. Það er reyndar frábært að hafa eina slíka týpu í því verkefni. Við erum til dæmia að tala við eina sem heitir Sue, og starfar fyrir og á Bargain Properties. Hún sendir mér info mörgum sinnum á dag og ráðleggur mér eftir bestu getu. Hún fær borgað frá mér ef hún finnur íbúð og gengur frá samningnum. Þá fær hún jafnvirði mánaðar leigu. Erum sem stendur með tvær íbúðir sem okkur líst vel á og losna í desember. Við erum nefnilega með dálítið þröngt plan sem við leitum eftir því við viljum vera á ákveðnu svæði sem næst skóla drengjanna, helst með 3 svefnherbergi, ekki á mörgum hæðum, þarf að losna í desember, vera laus í a.m.k. í 6 mánuði og svo auðvitað með sundlaug í garðinum. Þetta er að reynast dálítið vandasamt þar sem þetta er háanna tími á Tenerife, en þetta skal takast.
Margir spyrja okkur um hvað við ætlum að gera. Skiljanlega er gott að hafa eitthvað að gera en um leið skiptir líka miklu máli að gera ekki of mikið eftir að komið er út. Ná að lenda í rólegheitunum og passa upp á að drengirnir aðlagist vel. En ég mun starfa að einhverju leyti í svokölluðum „activity ferðum“, hlaup, hjól, göngur og fleira í þeim dúr. Þannig að mínir fyrstu mánuðir fara í að kynna mér aðstæður og læra að þekkja og búa til skemmtilegar ferðir fyrir Íslendinga sem koma út. Það er gríðarlega mikið hægt að gera þarna annað en að liggja í sólbaði og fá sér bjór, náttúran er alveg geggjuð og tilvalin til útivistar.
Það er skrítið að fara í gegnum dótið sitt og ákveða hverju skal fórna og hverju ekki. En um leið og það er skrítið þá er það pínu gaman líka.