Selma Björnsdóttir, leikkona og leikstjóri, er nýkomin heim frá Los Angeles þar sem hún ásamt nokkrum úr leikhópnum Vesturport settu upp verkið In the heart of Robin Hood í Wallis Annenberg centre for the performing arts í Beverly Hills.
„Þessi sýning hefur nú verið sett upp á átta stöðum víðs vegar um heiminn og hróður hennar farið víða. Paul Crews, leikhússtjóri the Wallis, hafði samband við Gísla Örn Garðarsson hjá Vesturporti og vildi fá sýninguna til þeirra. Í kjölfarið fórum við að undirbúa það. Ég fór til dæmis í viku út í ágúst og skoðaði yfir 300 leikara sem vildu vera með í sýningunni,“ segir Selma.
Hún segist vera algerlega heilluð af Los Angeles en hún dvaldi í Vestur-Hollywood meðan á þessu verkefni stóð.
„Ég er alveg ástfangin af þessari borg. Hún er uppfull af öfgum í allar áttir. Bæði á góðan og slæman hátt. Veðrið er auðvitað mikill plús sem og pálmatrén en traffíkin er rosaleg.“
Þegar Selma er spurð að því hvað hafi komið henni á óvart segir hún að vandi heimilislausra hafi haft mikil áhrif á hana.
„Ég vissi af því að vandi heimilislausra væri mikill en mig grunaði ekki að eymdin væri svona rosaleg. Það er mjög sorgleg staðreynd að þessu fólki er ekki hjálpað og þarf klárlega að bæta verulega,“ segir hún.
Þegar Selma er spurð út í verkefnið segir hún að það hafi gefið henni mikið að vinna með nýju fólki við sköpun. Það að ferðast og upplifa nýtt umhverfi sé alveg magnað. Aðspurð hvað drífi hana áfram nefnir hún sköpunina.
„Ástríða mín til sköpunar er ódrepandi.“
Hún segir að það sé draumur hvers leikstjóra að fá að upplifa verkefni eins og þetta. Gísli Örn Garðarsson leikstýrði verkinu með henni og Börkur Jónsson var leikmyndahönnuður sýningarinnar.
„Salka Sól Eyfeld er tónlistarstjóri sýningarinnar og stendur á sviðinu og syngur eins og engill og er búin að heilla alla upp úr skónum,“ segir Selma.